Fótbolti

Vill sjá beittari sóknarleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson stýrir íslenska kvennalandsliðinu í fyrsta sinn á heimavelli í dag.
Þorsteinn Halldórsson stýrir íslenska kvennalandsliðinu í fyrsta sinn á heimavelli í dag. vísir/sigurjón

Þorsteinn Halldórsson vill sjá íslenska liðið spila beittari sóknarleik gegn Írlandi en það gerði gegn Ítalíu í fyrstu leikjunum undir hans stjórn.

Ísland mætir Írlandi á Laugardalsvelli í dag í fyrri vináttulandsleik þjóðanna af tveimur. Þetta verður í fyrsta sinn sem Þorsteinn stýrir íslenska landsliðinu á heimavelli og fyrir framan áhorfendur.

Þorsteinn kvaðst heilt yfir sáttur með frammistöðu Íslands í leikjunum tveimur gegn Ítalíu í apríl. Hann segir þó enn rúm til að bæta sóknarleikinn og vill sjá hann beittari.

„Ég vil sjá okkur vera aðeins beinskeyttari og aðeins grimmari í pressu. Það eru helstu áherslurnar sem við erum að horfa í núna, að við spilum leikinn með ákveðið markmið í huga,“ sagði Þorsteinn.

„Það voru ákveðin hlaup sem vantaði í sóknina hjá okkur. Við hlupum lítið aftur fyrir og buðum ekki upp á þá möguleika. Við þurfum að laga það og heilt yfir þurfum við að vera beinskeyttari og hreyfanlegri í sóknarleiknum.“

Þorsteinn segir stöðuna á íslenska hópnum góða. „Heilt yfir er staðan á mannskapnum mjög góð. Einstaka leikmenn komu úr meiðslum fyrir einhverjum tíma og búnar að æfa aðeins,“ sagði þjálfarinn.

Þorsteini finnst leikmenn íslenska liðsins hafa verið móttækilegir fyrir hugmyndum hans og félaga hans í þjálfarateyminu.

„Mjög svo. Það hefur gengið vel. Leikmenn hafa verið jákvæðir og almenn gleði og jákvæðni gagnvart okkur. Við erum sáttir með hvernig okkur hefur verið tekið. Enda væru þær í vandræðum ef þær hefðu tekið okkur illa,“ sagði Þorsteinn léttur að lokum.

Leikur Íslands og Írlands hefst klukkan 17:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.