Fótbolti

„Algjör heiður að vera fyrirliði en allt liðið eru leiðtogar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur væntanlega sinn 79. landsleik í dag.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur væntanlega sinn 79. landsleik í dag. vísir/sigurjón

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verður fyrirliði íslenska landsliðsins næstu mánuðina. Hún segir það mikinn heiður en segir marga leiðtoga í íslenska liðinu.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, er barnshafandi og verður því frá næstu mánuðina. Gunnhildur hefur tekið við fyrirliðabandinu af Söru, var með það í vináttulandsleikjunum gegn Ítalíu í apríl, verður með það í leikjunum gegn Írlandi og í leikjunum í undankeppni HM 2023 í haust. Ísland mætir Írlandi á Laugardalsvelli í dag í fyrri vináttulandsleik þjóðanna af tveimur.

„Þetta er algjör heiður en ég er svo heppin að vera í liði þar sem allt liðið eru algjörir leiðtogar. Hver sem verður með bandið, það skiptir í sjálfu sér ekki máli því þetta er frábær hópur þar sem allir eru tilbúnir að stíga upp. En þetta er alltaf heiður,“ sagði Gunnhildur.

Hún segir að leikirnir á móti Írum séu afar mikilvægir fyrir íslenska liðið.

„Þeir eru mjög mikilvægir. Þetta eru síðustu tveir leikirnir áður en við förum í undankeppni HM. Þetta er mjög mikilvægur undirbúningur fyrir það og við þurfum að nýta leikina til að koma liðinu saman og þróa okkar leik,“ sagði Gunnhildur.

„Við höfum aðallega lagt áherslu á okkur og hvernig við viljum spila. Einbeitingin er meira á okkur og vinnum áfram í okkar málum.“

Gunnhildur segir að ekki hafi verið farið mjög djúpt ofan í leikina gegn Ítalíu í aðdraganda leikjanna gegn Írlandi.

„Þannig séð ekki. Við gerðum það þegar við vorum úti á Ítalíu. Við vitum hvað við gerðum vel og hverju við þurfum að vinna í,“ sagði Gunnhildur. Hún býst við öðruvísi leikjum en gegn Ítalíu.

„Írland er með hörkulið og eru fastar fyrir. Við þurfum bara að spila okkar leik og auðvitað viljum við halda eins mikið í boltann og við getum.“

Leikur Íslands og Írlands hefst klukkan 17:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.