Fótbolti

Kapphlaupið í hundrað landsleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, Birkir Már Sævarsson og Ragnar Sigurðsson eru allir komnir mjög nálægt því að spila hundrað landsleiki fyrir Ísland.
Aron Einar Gunnarsson, Birkir Már Sævarsson og Ragnar Sigurðsson eru allir komnir mjög nálægt því að spila hundrað landsleiki fyrir Ísland. Getty/Pressefoto Ulmer

Rúnar Kristinsson er eini Íslendingurinn sem hefur náð að spila hundrað leiki fyrir A-landsliðs karla í knattspyrnu. Það er hins vegar von á því að það bætist í hópinn í ár og það eru nokkrir sem eru til kallaðir.

Ragnar Sigurðsson spilaði sinn 97. A-landsleik 12. nóvember 2020 og var þá langlíklegastur til að verða maður númer tvö í hundrað leiki fyrir karlalandsliðið.

Ragnar var eftir þennan leik á móti Ungverjum í Búdapest, fyrir sjö mánuðum síðan, með fjögurra leikja forskot á næsta mann sem var Birkir Már Svarsson. Hann var líka sjö leikjum á undan þeim Aroni Einari Gunnarssyni og Birki Bjarnasyni.

Nú er staðan orðin allt önnur. Á meðan Ragnar Sigurðsson hefur ekki spilað aftur fyrir A-landsliðið þá hafa hinir þrír gert miklu meira en að nálgast hann.

Í leiknum á móti Færeyjum á föstudagskvöldið þá komst Birkir Bjarnason upp að hlið Ragnars og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar er aðeins einum leik á eftir.

Í annað sætið er aftur á móti kominn Birkir Már Sævarsson með 98 landsleiki. Birkir Már missti þó af leikjunum á móti Færeyjum og Póllandi og af möguleikanum á því að verða annar íslenski landsliðsmaðurinn í hundrað leiki. Birkir fór heim til að hjálpa Valsmönnum í Pepsi Max deildinni.

Nafni hans Birkir Bjarnason nær Birki Má væntanlega í Póllandsleiknum í kvöld og þá ætti Aron Einar að ná Ragnari Sigurðssyni í sama leik.

Staðan væri þá þannig að fjórir leikmenn væru þá með á bilinu 97 til 98 landsleiki. Íslenska liðið spilar næst þrjá leiki í september og þar ætti einhver þessara leikmanna og jafnvel fleiri en einn að komast í hundrað leikja klúbbinn.

Rúnar hefur verið sá eini í klúbbnum síðan 11. júní 2003 eða í rétt tæp átján ár. Rúnar hefur ennfremur átt markametið í tæp 22 ár eða síðan að hann jafnaði leikjamet Guðna Bergssonar 18. ágúst 1999. Rúnar hefur átt það einn síðan 8. september 1999.

 • Flestir leikir fyrir karlalandslið Íslands í knattspyrnu:
 • Rúnar Kristinsson 104 landsleikir
 • Birkir Már Sævarsson 98 landsleikir
 • Birkir Bjarnason 97 landsleikir
 • Ragnar Sigurðsson 97 landsleikir
 • Aron Gunnarsson 96 landsleikir
 • Kári Árnason 89 landsleikir
 • Hermann Hreiðarsson 89 landsleikir
 • Eiður Smári Guðjohnsen 88 landsleikir
 • Guðni Bergsson 80 landsleikir
 • Jóhann Berg Guðmundsson 79 landsleikir
 • Ari Freyr Skúlason 79 landsleikirFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.