Styttuna af Ryerson, sem stóð við Ryerson háskólann í Tortonto í Kanada, var þegar búið að skemma fyrr í vikunni. Þá hafði verið krotað á styttuna og rauðri málningu hellt yfir hana.
Fyrrnefndir heimavistarskólar voru reknir í Kanada í hartnær hundrað ár, frá áttunda áratug 19. aldar fram á áttunda áratug 20. aldar. Börn af frumbyggjaættum voru skikkuð til að sækja skólana og var markmiðið að afmá menningu barnanna og aðlaga þau að menningu innflytjenda frá Evrópu.
Þau voru þvinguð til að taka upp kristna siði og var meinað að tala eigin tungumál. Eftirlit með skólunum, sem voru reknir af ríkinu og trúarstofnunum, var lítið sem ekkert og voru börnin beitt ofbeldi og misnotuð kynferðislega. Skólarnir hafa verið mikið til umræðu undanfarna viku eftir að fjöldagröf 215 barna fannst við Kamloops Indian heimavistarskólann á dögunum.
Munu ekki endurreisa styttuna
Gagnrýni á Ryerson hefur aukist gífurlega undanfarna viku og hefur meðal annars verið kallað eftir því að styttan af honum verði fjarlægð af skólasvæðinu og að Ryerson háskólinn verði endurnefndur.
Eins og áður segir var búið að mála á styttuna og var meðal annars búið að skrifa á hana: „grafið þau upp“ og „gefið okkur landið aftur“.

Í yfirlýsingu frá háskólanum segir að meira en þúsund hafi tekið þátt í friðsamlegum mótmælum við skólann síðdegis í gær áður en einn mótmælenda kom með trukk á svæðið sem var notaður í að toga styttuna niður af stallinum.
Mohamed Lachemi, rektor skólans, sagði að styttan verði ekki endurreist.
Þá hefur skólinn skipað nefnd sem mun vinna að tillögu um það hvort eigi að endurnefna skólann og hvernig skólinn geti brugðist við arfleifðinni sem Ryerson skildi eftir sig. Nefndin á að ljúka vinnu sinni í september.