Erlent

Talið að þúsundir barna hafi dáið í skammarlegum skólum í Kanada

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk hefur verið að gera minnisvarða úr barnaskóm víðsvegar um Kanada. Hér má sjá konu leggja niður skópar á þrep ráðhússins í Kinsgston.
Fólk hefur verið að gera minnisvarða úr barnaskóm víðsvegar um Kanada. Hér má sjá konu leggja niður skópar á þrep ráðhússins í Kinsgston. AP/Lars Hagberg

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir fund líka 215 barna við gamlan heimavistarskóla fyrir fólk af frumbyggjaættum, ekki vera einsdæmi. Hann hefur heitið því að fólk sem var látið sækja þessa skóla muni fá aðstoð frá ríkinu.

„Því miður var þetta ekki undantekning eða einangrað atvik. Við munum ekki hunsa það. Við verðum að horfast í augu við sannleikann,“ sagði Trudeau í dag. Hann sagði sögu þessara skóla vera skammarlega harmsögu og að Kanadamenn þurfi að taka ábyrgð á þeim, samkvæmt frétt CBC.

Kamloops Indian skólinn í Bresku Kólumbíu rataði nýverið í fréttirnar vegna líkanna sem fundust þar. Honum var lokað árið 1977 en köll eftir því að ríkið fjármagni leit að líkum við fleiri skóla hafa orðið háværari um helgina.

Sjá einnig: Fjölda­gröf kanadískra barna fannst við skóla

Skólar þessir kallast á ensku Residential schools. Þeir voru reknir af ríkinu og trúarstofnunum og voru börn af frumbyggjaættum skikkuð til að sækja þá. Markmiðið var að afmá menningu barnanna og aðlaga þau að innflytjendum frá Evrópu.

Börnin voru þvinguð til að taka upp kristna siði og meinað að tala þeirra eigin tungumál. Eftirlit með skólunum var lítið sem ekkert og voru börn beitt ofbeldi og misnotuð kynferðislega. Auk þess sem mikið var um veikindi meðal nemenda.

Frá um 1870 til loka síðustu aldar voru minnst 150 þúsund börn sendi í einhverja af minnst 139 skólum.

Annar minnisvarði í Ottawa.AP/Adrian Wyld

Aðgerðasinnar frumbyggja og vísindamenn í Kanada áætla að minnst 4.100 börn hafi dáið í þessum skólum og allt að sex þúsund. Í einum skólanum, sem nefndur er í frétt CBC segir að minnst sjötíu af um 350 nemendum hafi dáið í Red Deer Indian Industrial skólanum í Alberta, sem var starfræktur í 26 ár.

Leiðtogar ættbálka frumbyggja hafa haldið því fram að mikla neyslu áfengis og fíkniefna meðal fólks af frumbyggjaættum í Kanada megi að miklu leyti rekja til þeirrar misnotkunar og ofbeldis sem fólk hafi gengið í gegnum í þessum skólum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×