Erlent

Flokkur for­setans missir meiri­hlutann

Atli Ísleifsson skrifar
Andres Manuel Lopez Obrador Mexíkóforseti í gær.
Andres Manuel Lopez Obrador Mexíkóforseti í gær. AP

Flokkur Andres Manuel Lopez Obrador Mexíkóforseta virðist hafa misst meirihluta sinn í neðri deild mexíkóska þingsins í kosningum sem fram fóru í gær. Fyrstu tölur benda þó til þess að flokkurinn, Morena, auk stuðningsflokka hans, hafi tryggt sér nægilega mörg þingsæti til að ná meirihluta.

Útlit er fyrir að flokkur Lopez Obrador muni ná milli 190 og 203 þingsætum af þeim fimm hundruð sem í boði eru. Flokkurinn var fyrir með hreinan meirihluta, eða 256 þingsæti.

Kosningabaráttan hefur farið fram í skugga morða á fjölda frambjóðendum og embættismönnum, en auk þess að kjósa sér nýtt þing var kosið um fimmtán af 31 ríkisstjóra í landinu, auk nýs ríkisstjóra í höfuðborginni Mexíkóborg. Þá var sömuleiðis kosið um nærri tvö þúsund borgarstjóra.

Litið var á kosningar sunnudagsins sem mælingu á vinsældir forsetans Lopez Obrabor og um tveggja ára valdatíð hans. Stjórnartíð hans hefur einkennst af baráttunni við faraldur kórónuveirunnar og öldu ofbeldis í landinu sem tengist glímu stjórnvalda við eiturlyfjahringi og sömuleiðis innbyrðis átök slíkra hringja.

Kosningabaráttan hófst í september á síðasta ári og hafa tugir stjórnmálamanna verið ráðnir af dögum síðan. Á sjálfum kjördegi voru fimm starfsmenn kjörstaða drepnir í sunnanverðu landinu og þá fundust tvö höfuð og aðrir líkamshlutar á þremur kjörstöðum í landamærabænum Tijuana í norðvestanverðu landinu.


Tengdar fréttir

Frambjóðendur myrtir í massavís í aðdraganda kosninga í Mexíkó

Minnst 34 frambjóðendur í komandi kosningum í Mexíkó hafa verið myrtir á undanförnum dögum. Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, segir glæpagengi vera að myrða frambjóðendur til að hræða fólk frá því að taka þátt í kosningunum, sem haldnar verða þann 6. júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×