Innlent

Skemmtanaglaðir hegðuðu sér vel

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá miðbæ Reykjavíkur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá miðbæ Reykjavíkur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Nokkuð fjölmennt var í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og nótt nú þegar slakað hefur verið á sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi að meira eða minna leyti í meira en ár. Þrátt fyrir það segir lögregla að allt hafi gengið vel fyrir sig.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að talsverður fjöldi hafi lagt leið sína í miðborgina til þess að skemmta sér. Þegar leið að lokun skemmtistaðanna á miðnætti hafi mátt sjá óvenjumarga á ferðinni miðað við ástandið síðasta árið í kórónuveirufaraldrinum.

Til marks um hversu vel nóttin hafi gengið segir lögreglan að engar tilkynningar hafi borist um líkamsárás í miðborginni.

Á höfuðborgarsvæðinu voru aftur á móti sjö handteknir fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Einn þeirra var handtekinn í Breiðholti en hann hafði þá ekið töluverða leið á sprungnum hjólbörðum og segir lögregla að bifreiðin hafi verið komin á felgurnar.

Tveir vegfarendur fundu umtalsvert magn peninga úti á götu í póstnúmeri 101 um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Létu þeir lögreglu vita af fjármununum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×