Erlent

Delta-af­brigðið greinist í Ástralíu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alls hafa 64 greinst smitaðir af Covid-19 í Viktoríu frá 24. maí síðastliðnum.
Alls hafa 64 greinst smitaðir af Covid-19 í Viktoríu frá 24. maí síðastliðnum. Getty/Darrian Traynor

Yfirvöld í Viktoríu í Ástralíu tilkynntu í dag að Delta-afbrigði kórónuveirunnar hafi greinst í fyrsta skipti í landinu í Melbourne. Kórónuveirutilfellum hefur farið fjölgandi í Ástralíu undanfarna viku og hafa yfirvöld áhyggjur af nýjustu vendingum.

Delta-afbrigðið er rakið til Indlands og virðist það smitast hraðar og auðveldar en önnur afbrigði veirunnar. Afbrigðið greindist nýverið í Bretlandi, þar sem smitum hefur fjölgað gríðarlega undanfarnar vikur.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu afbrigði,“ sagði Brett Sutton, yfirmaður heilbrigðisstofnunar Viktoríu, í samtali við fréttamenn í Melbourne í dag.

Aðeins tveir hafa greinst smitaðir af Delta-afbrigðinu í Ástralíu og eru þeir því ekki taldir tengjast öðrum smitum sem hafa greinst. Smitrakning stendur nú yfir og vonast heilbrigðisyfirvöld til þess að geta komið í veg fyrir að afbrigðið komist út í samfélagið.

Hinir smituðu, sem eru fjölskyldumeðlimir, ferðuðust til Nýju Suður Wales fyrir tveimur vikum síðan og talið er að þeir hafi verið smitandi á meðan á ferðalaginu stóð. Heimsóttu þeir fjölfarna ferðamannastaði í suðurhluta ríkisins.

Sutton segir það koma til greina að fólkið hafi smitast á meðan það var á ferðalaginu en það eigi enn eftir að koma í ljós. Enginn hefur greinst smitaður af veirunni í Nýju Suður Wales í mánuð.

Viktoría, sem er annað fjölmennasta ríki Ástralíu, hefur glímt við fjölda smita undanfarinn mánuð en alls hafa 64 greinst smitaðir af veirunni frá 24. maí síðastliðnum. Fyrir það hafði enginn greinst smitaður af veirunni í þrjá mánuði. Öll tilfellin hafa verið rekin til eins ferðamanns sem losnaði úr sóttkví eftir að hafa greinst neikvæður á Covid-prófi.

Um leið og fyrstu smitin greindust gripu yfirvöld í Melbourne til harðra aðgerða og settu á útgöngubann. Það hefur nú verið framlengt til 10. júní en víða annars staðar í ríkinu hefur verið slakað á aðgerðum.

Nú hafa alls 20 prósent fullorðinna fengið fyrsta skammt Covid-19 bólusetningar í Ástralíu en alls hafa 4,8 milljónum skammta verið útdeilt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.