Innlent

Borholan gaus eftir að bóndinn dældi upp úr henni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hverinn gýs á tíu til tuttugu mínútna fresti.
Hverinn gýs á tíu til tuttugu mínútna fresti.

Goshverinn sem opnaðist á Reykjavöllum í Biskupstungum er í raun borhola frá 1947, sem áður var notuð til að hita upp gróðurhús á svæðinu. Jarðfræðingur segir að ekki sé um að ræða eitthvað sem gerist af náttúrunnar hendi, heldur hafi holan farið að gjósa heitu vatni þegar hreinsað var upp úr henni.

„Þetta er gömul borhola sem var boruð 1947, ein af sex, og var lengi vel nýtt til að hita upp gróðurhúsin á svæðinu. Svo var hætt að nýta hana, hún var stífluð og hefur verið það síðustu 30 árin. Það var bara leir og drulla í henni,“ segir Heimir Ingimarsson jarðfræðingur í samtali við fréttastofu, en hann var staddur á svæðinu eftir að hafa tekið goshverinn út í rannsóknarskyni.

Bóndinn hafi hreinsað upp úr holunni þar sem hann hugðist nýta holuna á nýjan leik. Hann hafi dælt á holuna með loftpressu, en á um sjö metra dýpi er einhver fyrirstaða í holunni.

„Þegar hann loftblés, þá kom hann holunni í gos. Hún sýður upp þessa sjö metra vatnssúlu á tíu til tuttugu mínútna fresti, þannig að það koma gos á tíu til tuttugu mínútna fresti,“ segir Heimir.

Þess á milli fellur vatnið aftur niður þar til hitinn að neðan, sem nær yfir hundrað gráðum, sýður það upp í gos á nýjan leik. Heimir segir að á nokkurra gosa fresti nái vatnsstrókurinn allt að tíu til fimmtán metra upp í loftið.

Ekki beint af náttúrunnar hendi

Heimir segir alveg ljóst að hverinn hafi myndast vegna þess að hreinsað var upp úr holunni og almennt megi ekki eiga von á því að svona hverar myndist upp úr þurru.

„Þetta er ekkert af náttúrunnar hendi sem gerist bara allt í einu. Það var verið að eiga við borholuna og þess vegna skapaðist þetta,“ segir Heimir.

Hann var staddur á svæðinu fyrir hönd Íslenskra orkurannsókna til að taka hverinn út, en sú athugun er þó hluti af stærri jarðhitarannsóknum á Reykjavöllum.

„Það hafa verið gerðar rannsóknir hérna í gegnum tíðina og við erum að byrja að skoða þetta aftur eftir svolítið hlé,“ segir Heimir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×