Innlent

Sex hópar verið dregnir og boðaðir í bólu­setningu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Á bólusetningardögum hefur verið þétt setið inni í Laugardalshöll.
Á bólusetningardögum hefur verið þétt setið inni í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Nú hafa alls sex hópar af sextíu verið boðaðir til bólusetningar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Réttur þeirra sem fá boðun samkvæmt handahófskennda kerfinu helst áfram, þótt það komist ekki á tilsettum boðunartíma.

Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu.

Nú hafa karlar fæddir 1999, 1987 og 1978 verið dregnir til boðunar í bólusetningu og konur fæddar 1996, 1983 og 1982 og gildir þetta fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þessir hópar eiga að hafa fengið boð í bólusetningu, en Ragnheiður segir rétt fólks til að mæta í bólusetningu ekki falla niður þó það komist ekki um leið og boðað er, líkt og einhverjir hafa haft áhyggjur af.

„Þú átt þinn rétt, hann helst og þú átt alltaf rétt á að koma til okkar í bólusetningu þegar þér hentar,“ segir Ragnheiður. Það er þó auðvitað með þeim fyrirvara að verið sé að bólusetja þann daginn, með því bóluefni sem viðkomandi hefur verið boðaður í bólusetningu með. Bólusett var á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag.

Þá bendir Ragnheiður á að mikilvægt sé að fólk virði boðaðan tíma eins og mögulegt er, en það geti eins og áður sagði mætt á öðrum tíma komist það með engu móti á þeim tíma sem það er boðað.

Ragnheiður segir þá að bólusetning þeirra forgangshópa sem eftir stóðu sé vel á veg komin. Búið sé að „kasta út síðasta netinu“ til hópa númer sex og sjö, það er að segja síðasta boðun hafi verið send út. Í þeim hópum er fólk sextíu ára og eldri annars vegar og einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma hins vegar.

Ragnheiður Ósk hefur séð um að draga um hvaða hópar fá næstir boðun í bólusetningu.Vísir/Vilhelm

Bólusetning hóps númer átta, starfsfólks leik- grunn og framhaldsskóla sé þá háð því afhendingu á bóluefni Janssen, sem sóttvarnalæknir hefur mælt með að sá hópur verði bólusettur með.

„Við höfum bara fengið svo lítið af Janssen að við höfum ekki náð að klára þessa hópa,“ segir Ragnheiður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.