Fótbolti

„Bjóst við að stressið yrði meira“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjar Ingi Bjarnason sækir að Henry Martín, framherja Mexíkó, í leiknum um helgina.
Brynjar Ingi Bjarnason sækir að Henry Martín, framherja Mexíkó, í leiknum um helgina. getty/Matthew Pearce

Brynjar Ingi Bjarnason, leikmaður KA, þreytti frumraun sína með íslenska A-landsliðinu þegar það tapaði fyrir Mexíkó, 2-1, í Dallas aðfaranótt sunnudags.

Sviðið var stórt en leikurinn fór fram á AT&T leikvanginum í Dallas, heimavelli NFL-liðsins Dallas Cowboys. Fjörutíu þúsund manns voru á leiknum.

„Þetta var mögnuð upplifun. Mér var bara kastað í djúpu laugina og ég hef ekki upplifað svona áður. Það var smá sjokk þegar ég sá völlinn fyrst en ég bjóst við að stressið yrði meira,“ sagði Brynjar Ingi á blaðamannafundi KSÍ í gær. „Þegar ég var kominn inn á völlinn og leikurinn hófst var ég frekar rólegur og mér leið vel.“

Akureyringurinn kvaðst ánægður með sína frammistöðu ef frá eru talin mistökin sem hann gerði í fyrra marki Mexíkó.

Brynjar Ingi hafði aldrei leikið fyrir íslenskt landslið fyrr en um helgina.getty/Matthew Pearce

„Frammistaðan var mjög góð fyrir utan þessar tíu sekúndur þegar maður gerði mistök sem maður þarf að læra af,“ sagði Brynjar sem hefur verið í hópi bestu miðvarða Pepsi Max-deildarinnar undanfarin tvö ár.

Framundan eru tveir vináttulandsleikir til viðbótar, gegn Færeyjum og Póllandi. Brynjar ætlar að nýta tímann með landsliðinu til hins ítrasta.

„Þetta er mjög stórt fyrir mig sem leikmann. Ég ætla að taka þetta af alvöru og nýta tækifærið vel, ekki bara í leikjum heldur einnig á æfingum. Þetta gerist ekki stærra og maður verður að grípa tækifærið,“ sagði Brynjar.

Brynjar Ingi hefur tekið stór skref fram á við á stuttum tíma.vísir/vilhelm

Hann var ekki valinn í hóp U-21 landsliðsins sem fór á EM, stuðningsmönnum KA til mikillar gremju. Brynjar segist sjálfur ekki hafa gert sér vonir um að fara með á EM.

„Ég gerði mér engar væntingar. Ég hafði ekkert verið í hópnum fram að þessu og bjóst ekki við að þeir myndu hræra upp í þessu. Ég var búinn að undirbúa mig undir hvort tveggja,“ sagði Brynjar sem lék aldrei fyrir yngri landslið Íslands.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.