Fótbolti

10 dagar í EM: Ronaldo deilir markametinu en á leikjametið einn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo horfir til himins í leiknum á móti Íslandi á EM í Frakklandi 2016.
Cristiano Ronaldo horfir til himins í leiknum á móti Íslandi á EM í Frakklandi 2016. EPA/MAST IRHAM E

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Cristiano Ronaldo er að mæta á sitt fimmta Evrópumót í sumar og bætir leikjametið með hverjum leik.

Portúgalinn Cristiano Ronaldo endaði síðasta Evrópumót sem handhafi bæði leikjametsins og markametsins í úrslitakeppni EM. Hann deilir markametinu reyndar enn með Michel Platini en gæti bætt úr því á EM í sumar.

Ronaldo hefur alls skorað 9 mörk í 21 leik í úrslitakeppni EM. Hann hefur spilað þremur leikjum meira en næsti maður sem er Þjóðverjinn Bastian Schweinsteiger.

Michel Platini skoraði öll sín níu mörk á EM 1984 en Ronaldo hefur aldrei skorað meira en þrjú mörk í einni keppni.

Ronaldo spilaði á sínu fyrsta Evrópumóti sumarið 2004 en þá fór það einmitt fram í Portúgal. Ronaldo, sem þá var bara nítján ára gamall, skoraði 2 mörk í 6 leikjum. Fyrsti leikur hans á þessu Evrópumóti var bara landsleikur númer átta hjá honum og Ronaldo skoraði í 2-1 tapi á móti Grikklandi.

Ronaldo skoraði eitt mark á EM 2008, þrjú mörk á EM 2012 og loks þrjú mörk á síðasta EM sumarið 2016.

Ronaldo verður fyrsti maðurinn til að spila á fimm Evrópumótum en Spánverjinn Iker Casillas hefur verið fimm sinnum í EM-hóp Spánverja en spilaði ekki mínútu á EM 2000 eða EM 2016. Zlatan Ibrahimovic hefði getað náð þessu líka en missir af mótinu vegna meiðsla.

Ronaldo getur einnig náð sér í annað met. Hann hefur verið fyrirliði í 12 af þessum 21 leik en metið sem fyrirliði í úrslitakeppni EM á ítalski markvörðurinn Gianluigi Buffon sem á að baki þrettán leiki sem fyrirliði Ítala.

Hér fyrir neðan má sjá þá leikjahæstu og markahæstu í sögu úrslitakeppni Evrópumóts karla.

Flestir leikir í úrslitakeppni EM:

  • 21 - Cristiano Ronaldo (Portúgal)
  • 18 - Bastian Schweinsteiger (Þýskaland)
  • 17 - Gianluigi Buffon (Ítalía)
  • 16 - Cesc Fabregas (Spánn)
  • 16 - Andrés Iniesta (Spánn)
  • 16 - Lilian Thuram (Frakkland)
  • 16 - Edwin van der Sar (Holland)
  • 15 - Joao Moutinho (Portúgal)
  • 15 - Nani (Portúgal)
  • 15 - Pepe (Portúgal)
  • 15 - Sergio Ramos (Spánn)
  • 15 - David Silva (Spánn)
  • -

Flest mörk í úrslitakeppni EM:

  • 9 - Michel Platini (Frakkland)
  • 9 - Cristiano Ronaldo (Portúgal)
  • 7 - Alan Shearer (England)
  • 6 - Zlatan Ibrahimovic (Svíþjóð)
  • 6 - Thierry Henry (Frakkland)
  • 6 - Patrick Kluivert (Holland)
  • 6 - Nuno Gomes (Portúgal)
  • 6 - Antoine Griezmann (Frakkland)
  • 6 - Wayne Rooney (England)
  • 6 - Ruud van Nistelrooy (Holland)

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×