Innlent

Brunaði af vettvangi eftir að hafa ekið niður ær og lamb

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla minnir á að nú sé sá tími farinn í hönd þar sem búast megi við búfénaði við vegi.
Lögregla minnir á að nú sé sá tími farinn í hönd þar sem búast megi við búfénaði við vegi. Vísir/Vilhelm

Þriðjudaginn 25. maí var bifreið ekið á ær og lamb á Suðurlandsvegi skammt frá Jökulsárlóni og drápust bæði. Bílnum var ekið af vettvangi og ekki tilkynnt um slysið.

Þetta kemur fram í skýrslu lögreglunnar á Suðurlandi yfir verkefni síðustu viku.

Þar segir lögregla að nú fari sá tími í hönd að búast megi við búfénaði við veg. Því sé nauðsynlegt fyrir ökumenn að hafa gætur á sér þar sem von er á slíku.

Alls var 31 ökumaður tekinn fyrir of hraðan akstur. Einn þeirra var með útrunnin réttindi á 130 kílómetra hraða. Ungur ökumaður á bráðabirgðaskírteini þarf að fara aftur á sérstakt námskeið eftir að hafa farið upp fyrir fjóra refsipunkta með broti sínu.

Ökumaður á vörubifreið var sektaður fyrir að vera ekki búinn að skipta út nagladekkjum. Þá hafði hann ekki gengið nægilega vel frá farmi á palli bifreiðarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×