Erlent

Loka á öll flug til Nuuk og veitinga­stöðum lokað

Atli Ísleifsson skrifar
Þrír hafa greinst með kórónuveiruna í Nuuk í vikunni.
Þrír hafa greinst með kórónuveiruna í Nuuk í vikunni. Getty

Grænlenska stjórnin hefur ákveðið að loka á allt flug til höfuðborgarinnar Nuuk fram á mánudag. Íþróttaviðburðir verða sömuleiðis bannaðir og veitingastöðum gert að loka.

Grænlenska heimastjórnin tilkynnti um þetta nú síðdegis. Þrjú kórónuveirusmit hafa komið upp í Nuuk þessa vikuna og hefur ekki tekist að rekja uppruna eins smitsins. Er því óttast að fleiri kunni að vera smitaðir í samfélaginu.

Frá þessu segir á síðunni Sermitsiaq.AG. Þar segir að sá sem greindist í gær hafi stundað næturlífið í höfuðborginni um síðustu helgi og ekki talið útilokað að viðkomandi hafi smitast þar. Á laugardaginn hafi hann sótt veitingastaðinn Hereford Beefstouw á Hotel Hans Egede. Þaðan hafi leiðin svo legið á skemmtistaðina Skyline og Daddys.

Heilbrigðisyfirvöld á Grænlandi hafa hvatt alla þá sem sóttu þessa staði um liðna helgi að fara í sýnatöku.

Á fréttamannafundinum nú síðdegis var ítrekað að fólk í Nuuk skuli notast við grímu í verslunum, opinberum byggingum og í almenningssamgöngum.

Alls hafa 37 manns greinst með kórónuveiruna á Grænlandi frá upphafi faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×