Innlent

Vinnur að því að sam­ræma þjónustu fyrir þol­endur heimilis­of­beldis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Drífa Jónasdóttir vinnur nú að úrbótum á verklagi um þjónustu heilbrigðisstofnana fyrir þolendur heimilisofbeldis.
Drífa Jónasdóttir vinnur nú að úrbótum á verklagi um þjónustu heilbrigðisstofnana fyrir þolendur heimilisofbeldis. Vísir

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur, hefur verið ráðin af heilbrigðisráðuneytinu til þess að móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að ráðast í þetta verkefni er byggð á niðurstöðum skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið og felur í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónustan mætir ólíkum þörfum kynjanna.

Sú skýrsla var unnin af Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, nýdoktor í kynjafræði. Í henni kemur meðal annars fram að ofbeldi í nánum samböndum, eða heimilisofbeldi, hafi meiriháttar afleiðingar fyrir lýðheilsu og þátttöku kvenna í samfélaginu.

Heimilisofbeldi geti meðal annars leitt til áverka, krónískra sjúkdóma, örorku eða dauða. Þriðjung morða á konum í heiminum megi rekja til ofbeldis í nánum samböndum.

Rannsóknin bendir einnig til þess að tæplega fjórðungur kvenna á Íslandi hafi orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Barnshafandi konur sem verði fyrir ofbeldi í nánum samböndum séu 16 prósent líklegri en aðrar til að missa fóstur og 41 prósent líklegri til þess að eignast barn fyrir tímann.

Í skýrslunni leggur Finnborg til leiðir til úrbóta, til dæmis með því að leggja mat á árangur verkferla og úrræða við móttöku þolenda heimilisofbeldis, skoða hvernig miðlun upplýsinga er háttað milli þjónustukerfa og mismunandi úrræða. Auk þess þurfi að byggja á þekkingu um valdaójafnvægi kynjanna og öðrum þáttum sem hafa áhrif á félagslega stöðu fólks og aðstæður.


Tengdar fréttir

24 eltihrellamál tilkynnt til lögreglu: „Þetta er svolítið mikið“

Síðan nýtt ákvæði í hegningarlögum um umsáturseinelti tók gildi í febrúar hafa minnst 24 mál af slíkum toga komið til kasta lögreglu á landsvísu. Langalgengast er að konur séu fórnarlömb eltihrella og umsáturseineltis en oft eru börn einnig óbeinir þolendur.

Þrjú útköll vegna heimilisofbeldis

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var nú síðdegis og í kvöld þrisvar kölluð út vegna heimilisofbeldis; í póstnúmerum 104, 105 og 108.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.