Innlent

Karlar í öðrum kjör­dæmum komu í veg fyrir odd­vita­sæti Bene­dikts

Sylvía Hall skrifar
Benedikt Jóhannesson segist hafa þegið 2. sæti á lista Viðreisnar gegn því að fá afsökunarbeiðni. Hana fékk hann ekki.
Benedikt Jóhannesson segist hafa þegið 2. sæti á lista Viðreisnar gegn því að fá afsökunarbeiðni. Hana fékk hann ekki. FAcebook

Meðlimur í uppstillingarnefnd Viðreisnar segir Benedikt Jóhannesson hafa látið það skýrt í ljós að hann vildi aðeins oddvitasæti á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Flokkurinn hafi ekki getað orðið við því þar sem þrír karlar væru nú þegar oddvitar í öðrum kjördæmum.

Þetta kemur fram í færslu Natans Kolbeinssonar sem situr í uppstillingarnefnd fyrir Reykjavíkurráð Viðreisnar, en fyrr í dag sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, að Benedikt hafi staðið til boða að taka 2. sæti á lista flokksins. Hann hafi ekki þegið það.

Benedikt vísaði þeim ummælum Þorgerðar á bug stuttu síðar. Hann segist hafa fallist á annað sætið, gegn því að fá afsökunarbeiðni frá þeim sem hefðu komið fram við hann með „óviðurkvæmilegum hætti“ í málinu.

Natan segir það hafa verið erfitt að setja karlkyns oddvita í öðru Reykjavíkurkjördæminu í ljósi þess að karlmenn hefðu fengið sviðið úti á landi. Auk þess hefðu þingkonur Viðreisnar lyft grettistaki á kjörtímabilinu og lyft flokknum upp í rúm ellefu prósent með störfum sínum.

„Ég fyrir mitt litla líf get ekki beðið hann eða nokkurn mann skriflega afsökunar á því að neita að hverfa frá jafnréttissjónarmiðum flokksins eða skilyrða sæti á framboðslista við kröfur eins frambjóðenda,“ skrifar Natan.

Hann segir umræðu um prófkjör hafa hlotið dræmar undirtektir innan ráðsins, en ferlið hafi allt farið eftir „þeim lýðræðislegu leikreglum sem flokkurinn setti sér við stofnun og Benedikt er einn af aðalhöfundum að.“


Tengdar fréttir

Benedikt vildi efsta sætið en var boðið það neðsta

Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda og fyrrverandi formaður Viðreisnar, mun ekki taka sæti á lista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Uppstillingarnefnd bauð Benedikt, sem sóttist eftir að leiða einhvern lista flokksins á suðvesturhorninu, að taka neðsta sæti.

Sigmar Guðmunds skipar annað sætið á eftir Þorgerði Katrínu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mun leiðir framboðslista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) fyrir komandi þingkosningar. Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður er í 2. sæti listans og Elín Anna Gísladóttir verkfræðingur skipar 3. sætið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×