Erlent

Segist hafa heyrt Boris tala um að leyfa líkum að hrannast upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Boris Johnson.
Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Boris Johnson. AP/Alberto Pezzali

Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Boris Johnson, segist hafa heyrt forsætisráðherrann segja að hann vildi frekar sjá þúsundir líka hrannast upp á Bretlandi, frekar en að herða sóttvarnaaðgerðir. Sjálfur hefur Johnson neitað því að hafa látið þessi orð frá sér.

Cummings, sem hefur varið deginum í að svara spurningum á breska þinginu, sagði þó í dag að Johnson hefði sagt: „Leyfið líkunum að hrannast upp“. Hann sagðist hafa séð eftir því að beita samkomutakmörkunum þegar hann gerði það fyrst og vildi ekki gera það aftur.

Þetta á Johnson að hafa sagt í október, skömmu eftir að hann greip til samkomutakmarkana í annað sinn, samkvæmt frétt Sky News. Hann mun hafa sagt að hann myndi aldrei gera það í þriðja sinn.

Johnson hefur verið harðlega gagnrýndur vegna þessara meintu ummæla hans.

Sjá einnig: „Leyfið líkunum að hrannast upp í þúsundatali!“

Heilt yfir hafa tæplega 4,5 milljónir manna smitast af Covid-19 á Bretlandi og þar af hafa minnst 128 þúsund dáið.

Eins og áður segir var Cummings náinn ráðgjafi Johnsons en hætti í nóvember. Hann sagði í dag að í október hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að Johnson væri óhæfur í starf forsætisráðherra og að hann ætlaði að hætta sem ráðgjafi hans.

Þá hafði Cummings einnig deilt við Carrie Symonds, kærustu Johnsons, og segir hana hafa skipað vini sína í stöður innan ríkisstjórnarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×