Innlent

Fjölmiðlafrumvarpið áfangasigur: Vill RÚV af auglýsingamarkaði en jafnframt bæta tækjutapið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/vilhelm

„Ég tel að það þurfi að ganga lengra. Það sem mér finnst mjög mikilvægt er að samkeppniseftirlitið sé heilbrigt. Ég myndi vilja að RÚV væri ekki á auglýsingamarkaði en það hefur ekki náðst sátt um það hvernig við förum í þær breytingar.“

Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í Bítinu í morgun, þar sem fjölmiðlafrumvarpið svokallaða var til umræðu. Frumvarpið var samþykkt í gær en það kveður á um endurgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla. Um er að ræða tímabundnar aðgerðir.

Ekki eru allir þingmenn á eitt sáttir um ágæti frumvarpsins en Lilja vísaði til þess að í stjórnarsáttmálanum væri talað um að styrkja stöðu fjölmiðla. Ýmsar útfærslur hefðu verið skoðaðar þegar hún settist í ráðherrastól og endurgreiðslan hefði verið ein þeirra.

„Það var alveg ljóst að þetta yrði brekka,“ sagði ráðherrann í Bítinu. „En aðalatriðið er að við náðum að klára þetta mál.“

„Þetta er fyrsta skrefið í því að styðja betur við fjölmiðla,“ sagði Lilja þegar gengið var á hana og sagði svokallað „sólarlagsákvæði“ til marks um það að málinu væri ekki lokið; það þyrfti meðal annars að skoða breytt landslag í fjölmiðlum, streymisveiturnar og stöðu RÚV.

Ráðherrann sagðist sjálf vilja RÚV af auglýsingamarkaði en það þyrfti að gerast í skrefum og að athuguðu máli og að menn hefðu ekki náð saman um hvernig það yrði gert. 

„Það verður að ríkja sátt um það hvernig RÚV fer af auglýsingamarkaði,“ sagði Lilja. Viljinn væri til staðar en ekki hefði náðst sátt um útfærsluna.

Framsóknarflokkurinn vildi koma til móts við tekjufall RÚV, að minnsta kosti að einhverju leyti.

Sagði hún frumvarpið sem samþykkt var í gær „áfangasigur“.

„Við höfum ekki séð svona frumvarp áður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×