Fótbolti

Maðurinn sem fann hund Sturridges kærir hann fyrir vangoldin fundarlaun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniel Sturridge hefur ekki leikið fótbolta síðan hann fór frá tyrkneska félaginu Trabzonspor í fyrra.
Daniel Sturridge hefur ekki leikið fótbolta síðan hann fór frá tyrkneska félaginu Trabzonspor í fyrra. getty/Hakan Burak Altunoz

Maðurinn sem fann hund fótboltamannsins Daniels Sturridge fyrir tveimur árum hefur kært hann fyrir vangoldin fundarlaun.

Lucci, hundi Sturridges, var stolið þegar brotist var inn á heimili hans í Los Angeles fyrir tveimur árum.

Sturridge óskaði eftir aðstoð á samfélagsmiðlum og lofaði þeim sem myndi finna Lucci rúmlega 3,6 milljónum króna.

Maður að nafni Foster Washington kveðst hafa fundið Lucci en ekki fengið fundarlaunin. Hann hefur því farið í mál við Sturridge. TMZ greinir frá.

Washington segist hafa fundið Lucci úti á götu og skilað honum til Sturridges en hafi ekki fengið krónu fyrir eins og fótboltamaðurinn lofaði. Hann hafi því ekki séð annan kost í stöðunni en að kæra Sturridge.

Hann hefur verið án félags eftir að hann yfirgaf Trabzonspor í Tyrklandi í mars á síðasta ári. Skömmu síðar fékk hann fjögurra mánaða bann fyrir brot á veðmálareglum.

Sturridge er hvað þekktastur fyrir tíma sinn með Liverpool en hann myndaði frábært sóknarpar með Luis Suárez tímabilið 2013-14 þegar Rauði herinn var hársbreidd frá því að verða Englandsmeistari. 

Sturridge, sem er 31 árs, hefur leikið 26 landsleiki fyrir England og skorað átta mörk. Lék hann með Bretlandi á Ólympíuleikunum í London 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×