Innlent

„Við höfum smá tíma“

Snorri Másson skrifar
Eldgosið í Fagradalsfjalli hefur staðið yfir í rúma tvo mánuði og er farið að gera sig líklegt til að leita niður úr fjallinu og út í sjó yfir Suðurstrandarveg. Spurningin er hve langan tíma það tekur hraunið að fylla Nátthaga.
Eldgosið í Fagradalsfjalli hefur staðið yfir í rúma tvo mánuði og er farið að gera sig líklegt til að leita niður úr fjallinu og út í sjó yfir Suðurstrandarveg. Spurningin er hve langan tíma það tekur hraunið að fylla Nátthaga. Vísir/Vilhelm

Hraun úr eldgosinu í Fagradalsfjalli stefnir niður að sjó og yfir Suðurstrandarveg ef gosið heldur áfram um óákveðinn tíma. Hvort það byrji að gerast eftir tvær vikur eða fleiri mánuði er enn óljóst.

Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn almannavarna segir í samtali við Vísi að í vikunni standi yfir gagnaöflun í Nátthaga, sem er tiltölulega djúpur dalur sem nú fyllist hægt og rólega af hrauni.

Nátthagadalur er stór en ekki alls kostar botnlaus.Vísir/Vilhelm

Þar verður reynt á grundvelli hermilíkana að reikna út hve langan tíma það tekur fyrir dalinn að fyllast. Síðan verður metið hvort raunhæft sé að koma í veg fyrir að hraunið leiti niður að sjó.

„Okkur sýnist á öllu að við höfum smá tíma. Við þurfum að nota hann vel og undirbúa okkur,“ segir Rögnvaldur.

Rögnvaldur segir að tekið geti tvær vikur og allt að fleiri mánuðum að fylla Nátthagann og að hraunið fari síðan að leita niður að sjó. „Það er því ekki hundrað í hættunni og við erum að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni, til dæmis hvort það sé raunhæft að setja upp einhverjar varnir.“

Eldgosið gæti þróast út í dyngjugos sem varir í fleiri ár, eins og komið hefur fram. Takturinn í hraunstreyminu er slíkur og sömuleiðis er farin að myndast hrauntjörn, eða miðlunarlón, á eldstöðvunum. Það er grunnforsenda fyrir myndun hraunskjaldar eða dyngju.


Tengdar fréttir

Ýttu upp neyðargörðum fram á nótt til að verjast hraunrennsli

Stíflugerðarmenn á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli stóðu í æsispennandi kapphlaupi í gærkvöldi og fram á nótt við að ryðja upp neyðargörðum þegar hraunrennsli stefndi á eystri varnargarðinn ofan Nátthaga. Búið er að bæta við annarri jarðýtu til að hraða styrkingu varnargarðanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×