Innlent

Stefnir í metár í fæðingum á Íslandi: „Börn sem hafa verið getin í kórónuveirufaraldrinum“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Búist er við metári í fæðingartíðni hér á landi. 
Búist er við metári í fæðingartíðni hér á landi.  mynd/getty

Það stefnir í metár í fæðingum á Íslandi. Gert er ráð fyrir að 5000 börn fæðist í ár, sem eru 500 fleiri en í fyrra.

Ingibjörg Hreiðarsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítala, segir mikla aukningu hafa orðið á þjónustu Landspítala vegna meðgöngu og fæðinga.

„Við erum búin að vera sjá svona aðeins aukningu á síðustu þremur til fjórum árum en síðan fórum við að sjá kipp upp úr áramótum núna og þá megum við búast við því að þau séu börn sem hafi verið getin í kórónuveirufaraldrinum,“ segir Ingibjörg.

Horft sé á tölfræðina út frá 20 vikna ómskoðunum. „Við erum að sjá töluvert mikla aukningu núna um mitt þetta ár.“

Fimm þúsund börn fæðist í ár

2021 verði að öllum líkindum metár í fæðingum hér á landi. „Það lítur út fyrir að það ætli að verða metár. Við sáum þetta líka í kjölfarið á bankahruninu og þetta eru svona tölur sem er svipaðar og voru þá. Það var aukning frá 2010 til 2012 en síðan jafnaði það sig út. Nú er þetta er að gerast aftur og það er útlit fyrir metár 2021 og líka 2022,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Hreiðarsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum.Vísir

Búist er við því að það fæðist hátt í 5000 börn á Íslandi í ár. „Við horfum á þetta út frá fósturgreiningunni fyrir landið allt. Ekki bara fæðingar á Landspítala heldur á landinu öllu. Ef við horfum á landið allt eru þetta 500 börnum fleiri en í fyrra. Þetta gætu verið 4800 til 5000 börn sem myndu fæðast á þessu ári en þetta eru tölur sem við erum að skjóta á,“ segir Ingibjörg.

Sautján próset fjölgun

Þannig sé gert ráð fyrir sautján prósent fjölgun á fæðingum á landinu öllu í júní og ágúst á þessu ári miðað við sömu mánuði í fyrra.

Eruði með nægan mannskap til að sinna þessu? „Við gerum ráð fyrir því að við ráðum við þetta. Við erum að vinna í að koma til móts við þessa spá. Starfsfólk færir til dæmis sumarfrí og svo förum við langt á gleðinni í starfinu,“ segir Ingibjörg. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×