Erlent

Segja BBC hafa stuðlað að andláti Díönu prinsessu

Snorri Másson skrifar
Bræðurnir létu þung orð falla í kjölfar skýrslu um vinnubrögð BBC.
Bræðurnir létu þung orð falla í kjölfar skýrslu um vinnubrögð BBC. Getty/Mark Large

Vilhjálmur prins og Harry bróðir hans hafa fordæmt Breska ríkisútvarpið harðlega fyrir framgöngu stofnunarinnar í tengslum við viðtal sem tekið var við Díönu prinsessu móður þeirra árið 1995.

Komið hefur fram að blaðamaður BBC, Martin Bashir, beitti blekkingum til þess að fá Díönu í viðtalið, meðal annars með því að ljúga að henni að verið væri að greiða fólki fyrir að njósna um hana.

Díana fór í viðtalið og það dró dilk á eftir sér í lífi hennar og tveimur árum eftir viðtalið lést hún.

Vilhjálmur sagði í myndbandsyfirlýsingu í kvöld að með vinnubrögðum sínum hafi BBC bætt á andleg veikindi Díönu og bætt gráu ofan á svart í sambandi hennar við föður drengjanna, Karl. Í kjölfarið hafi ekki aðeins blaðamaðurinn brugðist í að taka ábyrgð á slæmum aðferðum sínum, heldur einnig æðstu stjórnendur BBC.

Vilhjálmur: „Viðtalið lagði mikið af mörkum til þess að gera samband foreldra minna verra og særði marga aðra.“ Ef BBC hefði rannsakað málið vel á sínum tíma, hefði Díana að minnsta kosti vitað að hún hefði verið blekkt.

Harry sagði í aðskildri yfirlýsingu, sem var mildari en yfirlýsing Vilhjálms, að menning, þar sem misnotkun á fólkinu í sviðsljósi þrífst stanslaust í fjölmiðlum, hafi að lokum dregið móður hans til dauða. Hann sagði að annað eins tíðkist enn þá í fjölmiðlum í dag.

BBC hefur sent Vilhjálmi og Harry afsökunarbeiðni og Karli Bretaprins sömuleiðis. Þá hefur Spencer jarl, bróðir Díönu, einnig fengið afsökunarbeiðni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×