Innlent

„Sam­fé­lags­miðlar eru frá­bær vett­vangur fyrir byltingar en hrika­legur dóm­stóll“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hildur Sverrisdóttir hefur gefið kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Sverrisdóttir hefur gefið kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Margrét Seema Takyar

Hildur Sverris­dóttir, vara­þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og að­stoðar­maður ferða­mála- iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, hefur á­hyggjur af því að það verði að við­tekinni venju að fólk í sam­fé­laginu taki refsi­valdið í sínar hendur þegar dóm­stólar bregðast í kyn­ferðis­brota­málum.

„Sam­fé­lags­miðlar eru frá­bær vett­vangur fyrir byltingar en hrika­legur dóm­stóll. Þetta finnst mér verða að hafa í huga þótt til­finningarnar gagn­vart kerfi sem þykir ekki virka á sann­gjarnan hátt séu meira en skiljan­legar,“ skrifar Hildur í pistli á Face­book.

Fagnar umræðunni

Hún segist sjálf vera þolandi og hafa tals­verða reynslu af störfum gegn kyn­ferðis­brotum og tak­mörkunum á sjálfs­á­kvörðunar­rétti kvenna. Það hafi því komið henni á ó­vart að MeT­oo-um­ræður síðustu daga hafi opnað augu hennar enn frekar fyrir ýmsu tengdu málaflokknum, því hún taldi sig nokkuð upplýsta fyrir.

„En það er öllum hollt að hlusta og læra að hugsa hlutina upp á nýtt. Heilt yfir fagna ég þeirri mikil­vægu um­ræðu sem er að eiga sér stað. Það hefur verið þung­bært að lesa yfir allan þann ara­grúa frá­sagna þar sem fólk lýsir upp­lifun sinni af of­beldi. Það er þung­bært að átta sig á að það séu enn al­var­legar brota­lamir í sam­skiptum fólks og í kerfinu sem á að styðja við það.“

Hætta á ógeðfelldu ofríki

Hildur er menntaður lög­fræðingur og segist því alltaf eiga erfitt að kryfja þessi mál án þess að velta upp laga­legu hliðinni. „Lögin verða aldrei full­komin en sann­gjarnt réttar­kerfi er ein mikil­vægasta trygging mann­réttinda sem fram hefur komið í sögu mann­kyns. Við getum bæði litið aftur í söguna og til landa í heiminum í dag þar sem réttar­kerfið er virt að vettugi og lög túlkuð eftir hentug­leik sem býður upp á ó­geð­fellt of­ríki ríkja gagn­vart fólkinu sínu.

Ef við ætlum að breyta sam­fé­laginu verður það að vera með þeim hætti að við koll­vörpum ekki kerfum sem þjóna þeim til­gangi að vernda grunn­réttindi borgaranna og að við bætum ekki eitt ó­rétt­læti með því að búa til annað ó­rétt­læti.“

Henni virðist þannig þykja var­huga­verð þróun að fólk sé dæmt sekt í um­ræðu á sam­fé­lags­miðlum án þess að mál þeirra fari fyrir dóms­kerfið. „Við höfum þegar séð at­lögur gerðar að því að fram­fylgja rétt­lætinu svo að segja í beinni og það vekur mér raun­veru­legum ugg að það verði að við­teknum hlut að fólk í sam­fé­laginu taki refsi­valdið í sínar hendur þegar kerfið bregst.

Ef við tökum okkur ekki tíma til að ræða hvernig við viljum leysa vandann og hvaða á­hrif lausnirnar geta haft á allt sam­fé­lagið getur farið mjög illa. Ef við viljum gera gagn­gerar breytingar verðum við að ræða það til hlítar og líta á allar mögu­legar af­leiðingar. Við getum ekki krafist koll­vörpunar kerfa nema ræða hvað eigi að koma í staðinn.“

Rök­rétt næstu skref í MetToo-bar­áttunni eru því að hennar mati að taka heiðar­legt sam­tal um það hvernig hægt sé að breyta menningunni sem býr til of­beldið, búa til sam­fé­lag sem hlustar og trúir og býður fólki leiðir sem koma að gagni fyrir þol­endur og ger­endur. Þó verði að gæta þess að á eftir „sitjum við ekki uppi með ríki þar sem fólk getur ekki treyst því að réttar­kerfið verndi grunn­réttindi þeirra“.


Tengdar fréttir

Ekkert rými fyrir kynferðislegt ofbeldi í samfélaginu

Forsætisráðherra vonar að sögur sem hafa sprottið upp í tengslum við metoo byltinguna muni stuðla að raunverulegum samfélagsbreytingum. Rótin að vandanum sé viðhorf og menning og því þurfi að auka fræðslu og umræðu. Hún kynnti í dag aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.