Fótbolti

Jón Dagur skoraði í sigri á meðan Hjörtur nældi sér í gult í tapi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur var á skotskónum í dag.
Jón Dagur var á skotskónum í dag. Ulrik Pedersen/Getty Images

Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Jón Dagur Þorsteinsson var á skotskónum í 3-1 sigri AGF og Hjörtur Hermannsson byrjaði er Bröndby tapaði 2-1 gegn FC Kaupmannahöfn.

Jón Dagur hóf leikinn á vinstri væng AGF í dag er liðið tók á móti Nordsjælland. Skoraði íslenski landsliðsmaðurinn annað mark liðsins í dag, kom hann AGF í 2-1 skömmu fyrir hálfleik. Þegar tæp klukkustund var liðin bættu heimamenn við þriðja markinu og gulltryggðu 3-1 sigur sinn.

Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Bröndby en nældi sér í gult spjald eftir aðeins sex mínútna leik. Hann fór af velli eftir slétta klukkustund en þá voru heimamenn í FC Kaupmannahöfn nýkomnir 2-1 yfir og Bröndby að reyna sækja jöfnunarmark.

Aðeins átta mínútum síðar misstu gestirnir mann af velli og því gekk brösuglega að sækja jöfnunarmarkið. Leiknum lauk með 2-1 sigri FCK og Bröndby því að missa af titlinum til Midtjylland sem gerði 1-1 jafntefli við Randers fyrr í dag. 

Mikael Anderson kom inn af bekk Midtjylland í uppbótartíma.

Þegar tvær umferðir eru eftir af dönsku úrvalsdeildinni er staðan þannig að Midtjylland trónir á toppnum með 57 stig eftir 30 leiki. Bröndby er með 55 stig og FCK er í 3. sæti með 52 stig. AGF er í 4. sæti með 48 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×