Fótbolti

Enginn skorað jafn mikið og Lewandowski í tæpa hálfa öld

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Robert Lewandowski getur ekki hætt að skora.
Robert Lewandowski getur ekki hætt að skora. EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS

Robert Lewandowski skoraði fyrsta mark leiksins þegar Bayern München og SC Freiburg gerðu 2-2 jafntefli í gær. Þetta var mark númer 40 hjá pólska framherjanum á tímabilinu, en enginn leikmaður hefur skorað svo mörg mörk á einu tímabili í þýsku úrvalsdeildinni síðan að Gerd Müller gerði það fyrir 49 árum.

Lewandowski er nú kominn með 40 mörk í 28 leikjum, en hann hefur skorað mark á 58 mínútna fresti. Þegar Müller setti metið árið 1972 skoraði hann mark á 77 mínútna fresti.

Lewandowski hefur líka skorað í 18 af seinustu 19 leikjum sínum, en hann náði ekki að skora gegn Hertha Berlin þann fimmta febrúar síðastliðinn.

Lewandowski fagnaði markinu í gær með því að lyfta upp treyju sinni og innan undir var hann í bol með mynd af þýsku goðsögninni og texti sem sagði „4ever Gerd.“

Hann er fyrsti leikmaðurinn til að skora 40 mörk á einu tímabili í einni af stóru deildunum fimm síðan að Luis Suarez gerði það fyrir Barcelona tímabilið 2015-2016. Lewandowski á enn möguleika á að bæta met Gerd Müller, en Bayern tekur á móti Augsburg í lokaleik tímabilsins næsta laugardag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.