Innlent

Kristján Þór biðst afsökunar á brogaðri upplýsingagjöf ráðuneytisins

Jakob Bjarnar skrifar
Kristján Þór Júlíusson baðst afsökunar á því, í upphafi fundar um skýrslu sem fjallar um ástand og horfur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum, með því að biðjast afsökunar á því hvernig upplýsingagjöf ráðuneytisins var háttað.
Kristján Þór Júlíusson baðst afsökunar á því, í upphafi fundar um skýrslu sem fjallar um ástand og horfur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum, með því að biðjast afsökunar á því hvernig upplýsingagjöf ráðuneytisins var háttað. vísir/vilhelm

Kristján Þór Júlíusson ráðherra vonast til að draga megi lærdóm af þeim mistökum sem voru gerð af hálfu ráðuneytisins; að mismuna í upplýsingagjöf aðgengi að skýrslu sem nú er til umfjöllunar.

Nú stendur yfir streymisfundur á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Kristján Þór Júlíusson ráðherra ávarpaði gesti áður en fundur hófst um skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi, og tengdum greinum, með afsökunarbeiðni.

„Áður en við byrjum fundinn vil ég geta þess hér að það voru mistök gerð við birtingu skýrslunnar sem mér þykir afskaplega leitt, því innihald og efnistök skýrslunnar eru með þeim hætti að hún á erindi við alla. Og því betur sem hún er kynnt þeim mun betra fyrir allt og alla. Mér er hvoru tveggja ljúft og skylt að biðjast afsökunar á þessum leiðu mistökum og vona að við drögum lærdóm af þeim.“

Þórð Snæ rak í rogastans þegar hann sá að blaðamenn Morgunblaðsins höfðu gert sér mat úr efni skýrslunnar, en hana höfðu þeir undir höndum sem og blaðamenn Viðskiptakálfs Fréttablaðsins. Þórður Snær taldi einsýnt að þarna væri verið að velja sérstaklega vilhalla fjölmiðla til að matreiða þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni.

Svo mörg voru þau orð og líklega hafa þeir sem ekki lásu Vísi í morgun átt erfitt með að átta sig á því hvað það var nákvæmlega sem Kristján Þór var að biðjast afsökunar á. En Vísir greindi frá því að Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans hafi farið þess á leit að kynna sér efni skýrslunnar, með svokölluðu embargó-i, sem þýðir að ekki yrði vitnað til þess fyrr en fundur hæfist. Svar frá ráðuneytinu við þeirri umleitan var þvert nei.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.