Erlent

Sjö lífs­tíðar­dómar fyrir að myrða sjö skjól­stæðinga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verjendur Mays segja hana meðal annars glíma við áfallastreituröskun eftir að hún sinnti herþjónustu í Írak 2003 til 2004.
Verjendur Mays segja hana meðal annars glíma við áfallastreituröskun eftir að hún sinnti herþjónustu í Írak 2003 til 2004. AP

Fyrrverandi sjúkraliði í Vestur-Virginíuríki í Bandaríkjunum hefur verið dæmdur í sjöfalt lífstíðarfangelsi fyrir að myrða aldraða skjólstæðinga sína á spítala fyrir bandaríska uppgjafarhermenn.

Konan, sem heitir Reta Mays, hafði fyrir dómi gengist við því að hafa orðið sjö skjólstæðingum sínum að bana með því að sprauta þá með insúlíni. Önnur 20 ár bættust við dóminn yfir henni fyrir tilraun til að myrða þann áttunda með sama hætti.

Dómarinn sem kvað upp dóminn yfir hinni 46 ára Mays lýsti henni sem „skrímsli af verstu gerð.“

Fórnarlömb Mays voru á aldrinum 81 til 96 ára og höfðu barist undir merkjum Bandaríkjanna á fyrri árum, meðal annars í síðari heimsstyrjöld og Kóreu- og Víetnamsstríðunum. Saksóknarar segja hana hafa sprautað fórnarlömb sín með insúlíni að óþörfu. Það leiddi til skyndilegs blóðsykurfalls sem dró fórnarlömbin til dauða.

Mays grét þegar hún ávarpaði dóminn.

„Ég get ekkert sagt sem getur veitt aðstandendum nokkra huggun. Ég get aðeins sagt að mér þykir fyrir því að hafa valdið þeim og fjölskyldu minni sársauka.

Verjendur Mays segja hana glíma við geðræn vandamál, meðal annars áfallastreituröskun, eftir að hún var í Írak á tíma sínum í bandaríska hernum 2003 til 2004. Dómari féllst á það, en sagði það þó ekki geta útskýrt eða afsakað gjörðir hennar.

Fyrir dómi kom meðal annars fram að Mays hefði notað vinnutölvu sína til þess að leita að upplýsingum um kvenkyns raðmorðingja á netinu. Þá er hún þrisvar sögð hafa logið að rannsóknarlögreglunni um sinn hlut í málinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.