Erlent

Kona ritstýrir Washington Post í fyrsta skipti

Kjartan Kjartansson skrifar
Sally Buzbee tekur við starfi aðalritstjóra Washington Post 1. júní. Þar mun hún stýra um þúsund manna ritstjórn.
Sally Buzbee tekur við starfi aðalritstjóra Washington Post 1. júní. Þar mun hún stýra um þúsund manna ritstjórn. AP/Chuck Zoeller

Sally Buzbee, varaforseti og aðalritstjóri AP-fréttastofunnar, hefur verið ráðin nýr yfirritstjóri bandaríska dagblaðsins Washington Post. Hún verður fyrsta konan sem ritstýrir blaðinu í hátt í 150 ára sögu þess.

Útgefendur Washington Post hafa leitað að eftirmanni Martin Baron en hann lét af störfum í lok febrúar. Hann hafði ritstýrt blaðinu frá 2013. 

Buzbee tekur við starfinu í næsta mánuði, að sögn Freds Ryan, útgefanda blaðsins. Sagði hann Buzbee njóta almennrar aðdáunar fyrir heiðarleika, atorkusemi og einlægan áhuga á hlutverki fjölmiðla í að varðveita lýðræðið.

Buzbee er 55 ára gömul og stýrði áður skrifstofu AP í Washington-borg. Þar áður var hún ritstjóri fréttaveitunnar í Miðausturlöndum en hún hefur starfað fyrir hana allan sinn blaðamannaferil sem hófst árið 1988. Frá Kaíró fjallaði hún meðal annars um Íraksstríðið, átök Ísraels og Hezbollah-samtakanna, stríðið í Darfúr í Súdan og uppgang hryðjuverkasamtaka í Sádí-Arabíu og Jemen.

Konur stýra nú mörgum helstu fjölmiðlum í Bandaríkjunum og víðar, þar á meðal Reuters-fréttastofunni, fréttastofu CBS- og ABC-sjónvarpsstöðvanna í Bandaríkjunum, NPR, MSNBC, Financial Times, Guardian og Ecomomist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×