Innlent

Af­­greiðslu­hraðinn tvö­faldaður til að takast á við met­fjölda komu­far­þega

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigurgeir Sigmundsson er yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum.
Sigurgeir Sigmundsson er yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum. Vísir/Vilhelm

Metfjöldi er í komu farþegaflugvéla til landsins, frá því að faraldurinn hófst, í dag og á morgun. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli breytti verklagi fyrir helgi til að takast á við fjölda komufarþega og var afgreiðsluhraðinn tvöfaldaður.

Þrjár flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun og er von á fimm til viðbótar í dag. Sex flugvélar eru væntanlegar til landsins á morgun.

Sigurgeir Ómar Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir að vel hafi gengið á flugvellinum það sem af er degi.

„Þetta gekk bara eins og við var búist. Ágætlega. Það komu tvær vélar rétt fyrir klukkan sex og um um hundrað farþegar í hvorri. Það tók svona einn og hálfan tíma að afgreiða þetta hjá okkur,“ sagði Sigurgeir. 

Nær allir bólusettir

Flugvélarnar þrjár sem lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun komu frá Bandaríkjunum og segir Sigurgeir að nær allir sem komu með þeim vélum hafi verið bólusettir.

„Það tekur dálítinn tíma að skoða þau vottorð en Bandaríkjamenn eru vanir langri bið á flugvöllum og líka fyrir Covid-19 faraldurinn þannig að það er enginn að æsa sig yfir þessu,“ sagði Sigurgeir.

Afgreiðsluhraðinn tvöfaldaður

Hann segir að bið eftir sýnatöku hafi ekki verið lengri en venjulega. Verklagi var breytt á flugvellinum fyrir helgi og var því afgreiðsluhraðinn tvöfaldaður með því að breyta verkaskiptingu milli landamæravarða.

„Það tók einn og hálfan tíma að tæma þessar tvær vélar sem komu rétt fyrir klukkan sex og um klukkutíma tók að afgreiða farþega úr vélinni sem kom klukkan átta. Þetta er bara tíminn sem þetta tekur núna.“

Heilbrigðisráðherra sagði í gær að svokölluð hraðpróf væru til skoðunar til að flýta fyrir ferlinu.

Sigurgeir segir að farþegafjöldinn sé til marks um að ferðamannaiðnaðurinn sé að komast á skrið.

„Fólk er mjög spennt að koma hingað og bara góð stemning bæði í farþegum og starfsfólki á vellinum. Og bara auðvitað mjög gott að þetta fari af stað, en við slökum ekkert á kröfunum og örygginu. Landamærin eru með þessu fyrirkomulagi mjög þétt og smit eru ekki að leka í gegn þannig að þetta er mjög gott fyrirkomulag held ég,“ sagði Sigurgeir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×