Fótbolti

Fjögur markalaus jafntefli í fjórum leikjum hjá United og Villarreal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meira að segja Cristiano Ronaldo mistókst að skora gegn Villarreal þegar liðið mætti Manchester United fjórum sinnum á árunum 2005-08.
Meira að segja Cristiano Ronaldo mistókst að skora gegn Villarreal þegar liðið mætti Manchester United fjórum sinnum á árunum 2005-08. getty/David Ashdown

Manchester United og Villarreal mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Gdansk í Póllandi síðar í þessum mánuði.

Þetta verður fimmti leikur liðanna í Evrópukeppnum en fjórir fyrstu leikirnir enduðu með markalausu jafntefli.

United og Villarreal voru saman í riðli í Meistaradeild Evrópu tímabilin 2005-06 og 2008-09.

Liðin gerðu markalaust jafntefli í báðum leikjunum 2005-06. Jafnteflin gerðu meira fyrir Villarreal sem vann riðilinn. United lenti hins vegar í neðsta sæti hans og sat eftir með sárt ennið. Villarreal fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar þetta tímabil en tapaði þar fyrir Arsenal.

United og Villarreal tókst heldur ekki að skora gegn hvort öðru í riðlakeppninni 2008-09. Þau komust þó bæði áfram og United fór alla leið í úrslit þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir Barcelona.

United og Villarreal mætast nú í fimmta sinn í Evrópukeppnum í Gdansk 26. maí og fá þá tækifæri til að gera eitthvað sem þeim hefur ekki enn tekist gegn hvort öðru; að skora.

United tapaði fyrir Roma, 3-2, í gær en komst áfram, 8-5 samanlagt. Á meðan gerði Villarreal markalaust jafntefli við Arsenal á Emirates en fór áfram, 2-1 samanlagt.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.