Fótbolti

Ætlar að klára tímabilið þrátt fyrir að æxli hafi verið fjarlægt úr honum í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco Mancosu er Lecce liðinu gríðarlega mikilvægur.
Marco Mancosu er Lecce liðinu gríðarlega mikilvægur. Getty/Maurizio Lagana

Marco Mancosu, fyrirliði ítalska félagsins Lecce, kom mörgum á óvart með færslu á Instagram í gær þar sem hann sagði frá því að krabbameinsæxli hefði fundist í honum í mars.

Mancosu og félagar eru að reyna að koma Lecce aftur upp í ítölsku A-deildina og hann ætlar ekki að stökkva frá borði þrátt fyrir veikindin.

Mancosu hafði ekki sagt opinberlega frá æxlinu eða því að hann hafi farið í aðgerð í lok mars.

„Ég fór í aðgerð 26. mars. Æxli var fjarlægt. Ég sá inn í heim sem ég hélt ég myndi aldrei kynnast. Ég sá hrylling í augum fólksins sem ég elska,“ skrifaði Marco Mancosu.

Marco Mancosu hefur verið lykilmaður hjá Lecce liðinu en hann er með 8 mörk og 9 stoðsendingar í 28 leikjum. Liðið er nú í þriðja sæti deildarinnar og aðeins tveimur stigum frá öðru sætinu sem gefur beint sæti í Seríu A.

„Læknarnir sögðu mér að tímabilið væri búið hjá mér og ég þyrfti bara að hugsa um næsta tímabil. Ég var samt farinn að hlaupa aftur á vellinum eftir tvær vikur,“ skrifaði Mancosu.

Hann missti úr fjóra leikien hefur komið inn á sem varamaður í síðustu tveimur leikjum liðsins.

„Eftir einn mánuð þá átti ég að fara aftur til Mílanó til að komast að því hvort ég þurfi að fara í lyfjameðferð. Ég hef ekki farið enn af því að ég er að gera það sem ég elska mest í þessum heimi sem er að spila fótbolta. Við sjáum bara til í lok tímabilsins. Ég hef þegar unnið,“ skrifaði Marco Mancosu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.