Innlent

Fyrirspurnum um Janssen rignir inn til heilsugæslunnar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bólusett verður með bóluefni Janssen í Laugardalshöll í dag. Kennarar og jaðarhópar eru meðal þeirra sem verða sprautaðir.
Bólusett verður með bóluefni Janssen í Laugardalshöll í dag. Kennarar og jaðarhópar eru meðal þeirra sem verða sprautaðir. vísir/Vilhelm

Fimm greindust með kórónuveiruna í gær og þar af var einn utan sóttkvíar. Kennarar og jaðarhópar eru meðal þeirra sex þúsund sem verða fullbólusettir með Janssen í dag. Fyrirspurnum um bóluefnið rignir inn til heilsugæslunnar.

Nýgengni smita fer lækkandi þessa dagana og alls eru nú 173 í einangrun með veiruna hér á landi. Þá fækkar um hátt í hundrað og þrjátíu manns í sóttkví milli daga, alls eru nú 329 í sóttkví.

Til stendur að fullbólusetja sex þúsund manns með bóluefni Janssen í dag en ólíkt öðrum bóluefnum þarf aðeins eina sprautu af efninu. 

„Hópar sem við boðuðum í þessa bólusetningu eru leikskólakennarar og kennarar og áhafnir skipa og flugvéla sem eru að fara erlendis og jaðarhópar líka,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Bóluefnið er boðið öllum yfir átján ára aldri. Nokkur umræða hefur verið um það eftir að dreifing var tímabundið stöðvuð vegna tengsla við sjaldgæfa tegund blóðtappa. Ákeðið var að hefja bólusetningar með efninu hér á landi eftir að Lyfjastofnun Evrópu gaf grænt ljós. Ragnheiður segir marga þó enn með spurningar.

„Það er mjög mikið af spurningum sem dynja á okkur þannig við erum alltaf að biðja fólk um að sýna biðlund alls staðar. Það er gífurlegt álag á símkerfið og netspjallið og við höfum svo sem ekkert meiri svör en sóttvarnarlæknir gefur út. Það er að Jansen á að vera í lagi. Við höfum engin önnur svör en það er mikið verið að spyrja,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.vísir/Vilhelm

Að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslunnar, hafa iðulega um áttatíu prósent boðaðara mætt í bólusetningu á tilsettum degi. Nokkuð er um að þeir ekki komast mæti á næsta degi þegar bólsett er með sama efni og telur hann að heildarmæting sé því um 85 til 90 prósent. Lítið sé um að fólk beinlínis afþakki bólusetningu.

Skili fólk sér ekki í bólusetningu í dag verður haft samband við þá næstu á lista að sögn Ragnheiðar.

„Við erum alltaf með plan. Planið í dag er að halda þá áfram með skólana, reyna að klára þá,“ segir hún.

Þessi vika er sú stærsta hingað til í bólusetningum og hafa nú ríflega 115 þúsund manns fengið að minnsta kosti fyrri skammt. Ragnheiður segir útlit fyrir að næsta vika verði aðeins rólegri en á morgun verða þeir skammtar sem til eru af AztraZeneca kláraðir og á föstudag verður seinni bólusetning með Moderna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.