Fótbolti

Matarboð Messi gæti komið Barcelona í vandræði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Braut Lionel Messi einhverjar sóttvarnarreglur. Það vilja La Liga menn nú komast að.
Braut Lionel Messi einhverjar sóttvarnarreglur. Það vilja La Liga menn nú komast að. Getty/Manuel Queimadelos/

Spænska deildin ætlar að rannsaka betur matarboð Lionel Messi á mánudaginn en hann bauð þá öllu Barcelona liðinu heim til sín.

Svo gæti farið að fyrirliði Barcelona hafi með þessu hópefli sínu brotið sóttvarnarreglur sem voru í gildi á svæðinu.

Fólk má hittast utan og innan dyra í Katalóníu en aldrei þó fleiri en sex saman í einu. Það er ljóst að það voru miklu fleiri komnir saman þegar Messi bauð öllu Barcelona liðinu heim til sín í Castelldefels, sem er útborg Barcelona við Miðjarðarhafið.

Börsungar vildu þjappa hópnum saman fyrir stórleik á móti Atletico Madrid um næstu helgi sem er einn af úrslitaleikjunum um spænska meistaratitilinn í ár.

ESPN hefur heimildir fyrir því að bæði leikmenn og makar þeirra hafi mætt í boðið en að þau hafi haldið sig utan dyra og borðað á aðskildum borðum. Messi hafi því passað upp á það að virða allar þær sóttvarnarreglur sem La Liga hefur sett.

Það breytir því þó ekki að forráðamenn La Liga vilja vita meira um hvað fór fram í matarboði Messi. Það þykir líka mikilvægt að áberandi menn eins og leikmenn Barcelona séu góð fyrirmynd á erfiðum tímum eins og nú í þessum miðja heimsfaraldri.

Ronald Koeman, þjálfari Barcelona, gaf leikmönnum Barcelona frí daginn eftir matarboðið og fyrsta æfing var ekki fyrr en í kvöld. Leikurinn við Atletico fer fram á Nývangi á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.