Fótbolti

Birkir skoraði í þriðja leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason fann skotskóna sína í landsliðsglugganum og hefur nú skorað í þremur leikjum í röð.
Birkir Bjarnason fann skotskóna sína í landsliðsglugganum og hefur nú skorað í þremur leikjum í röð. Getty/ DeFodi

Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason er heldur betur á skotskónum þessa dagana með ítalska liðinu Brescia.

Birkir var að skora í þriðja leiknum í röð í dag og er kominn með sex deildarmörk á tímabilinu. Birkir var einnig með stoðsendingu í leiknum.

Annan leikinn í röð kom Birkir Brescia liðinu í 1-0 en að þessu sinni skoraði hann fyrsta markið í 3-0 útisigri á Vicenza í ítölsku b-deildinni.

Mark Birkis kom á 38. mínútu með skoti af stuttu færi eftir undirbúning Alfredo Donnarumma en umræddur Donnarumma skoraði síðan sjálfur úr vítaspyrnu aðeins tveimur mínútum síðar.

Samvinna Birkis og Donnarumma hélt áfram því sá síðarnefndi kom Brescia í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks eftir stoðsendingu frá Birki. Birkir fór af velli á 62. mínútu. Brescia bætti ekki við marki án hans.

Birkir skoraði líka fyrsta mark Brescia í 3-1 sigri á SPAL fyrir aðeins þremur dögum síðan.

Birkir hafði einnig skorað fyrir Brescia í 2-4 tapi á móti toppliði Empoli en sá leikur fór fram 17. apríl síðastliðinn.

Birkir lagði líka upp mark í 1-1 jafntefli á móti Pescara 10. apríl og hefur því komið með beinum hætti að marki í fjórum síðustu deildarleikjum síns liðs.

Bjarki Steinn Bjarkason var enn á ný ónotaður varamaður þegar lið hans Venezia gerði 2-2 jafntefli á útivelli á móti Pisa.

Bjarki spilaði síðast 20. mars þegar hann kom inn á undir lokin en hefur ekki komið við sögu í síðustu sex leikjum. Bjarki Steinn hefur aðeins spilað í samtals tuttugu mínútur á árinu 2021.

Óttar Magnús Karlsson var ekki í hóp hjá Venezia annan leikinn í röð og hefur aðeins spilað í samtals fjórtán mínútur á árinu 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×