Enski boltinn

Guardiola: Ég mun ekki segja eitt orð um PSG við leikmennina mína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola er búinn að bíða lengi eftir því að koma Manchester City alla leið í Meistaradeildinni.
Pep Guardiola er búinn að bíða lengi eftir því að koma Manchester City alla leið í Meistaradeildinni. AP/Steve Paston

Leikmenn Manchester City eiga að einbeita að sér sjálfum en ekki mótherjunum í Paris Saint-Germain í undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni í kvöld.

Manchester City er í dauðafæri að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í kvöld þegar franska liðið Paris Saint-Germain kemur í heimsókn á Etihad leikvanginn í seinni leik liðanna. City vann fyrri leikinn 2-1 í París.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sagði blaðamönnum frá því að hann ætli ekki að segja eitt orð um PSG við leikmennina sína í aðdraganda leiksins.

„Við þurfum bara að einbeita okkur af því sem við þurfum að gera. Ég sagði ekki eitt orð um þá,“ sagði Pep Guardiola.

Það hefur verið óvissa um þátttöku Kylian Mbappe, framherja PSG, í leiknum í kvöld en stjóri City er ekki í neinum vafa.

„Hann mun spila þennan leik. Ég hlakka til að sjá hann spila. Fyrir fótboltann og fyrir leikinn þá vona ég að hann spili,“ sagði Guardiola.

„Þetta er í fyrsta sinn sem flestir okkar eru hér í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Ég veit hvað við erum að spila um. Í þessum leikjum þá máttu ekki vera með of mikið af tilfinningum. Þú þarft að vera rólegur og vita hvað þú átt að gera,“ sagði Guardiola.

„Ég þarf ekki að segja neinum það hversu mikilvægt þetta er. Það vita allir hvort sem það eru leikmenn, þjálfarateymið, starfsmenn eða jafnvel kokkarnir,“ sagði Guardiola.

Leikur Manchester City og Paris Saint-Germain hefst klukkan 19.00 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18.15 á sömu stöð.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×