Erlent

Hækkar hámark flóttamanna eftir gagnrýni

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/EVan Vucci

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að hækka hámark á fjölda flóttamanna sem Bandaríkin munu taka við á árinu. Það er í kjölfar þess að ríkisstjórn hans tilkynnti að hámarkið yrði það sama og það var í forsetatíð Donalds Trump, forvera hans.

Sú ákvörðun var harðlega gagnrýnd af stuðningsmönnum Bidens og bandamönnum hans.

Nú hefur hámarkið verið hækkað í 62.500. Í yfirlýsingu sagði Biden að gamla hámarkið hefði ekki verið í anda Bandaríkjanna og þeirra gilda sem þar eru í fyrirrúmi.

Forsetinn segir að líklegast verði ekki hægt að taka við 62.500 flóttamönnum á þessu ári, því innflytjendakerfi Bandaríkjanna hafi orðið fyrir miklu tjóni í forsetatíð Trumps vegna mikilla niðurskurðar. Unnið sé að endurbótum.

Þá sagði Biden markmið hans að hækka hámarkið í 125 þúsund fyrir næsta ár.

Skömmu eftir að Biden tók við embætti hét hann því að taka á móti fleiri flóttamönnum og því kom ákvörðun hans um að halda hámarki ríkisstjórnar Trumps á óvart. Sú ákvörðun hefur verið rakin til þess að hann óttaðist að það liti illa út að hækka fjöldann, í ljósi þess ástands sem hefur myndast á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Þar hefur innflytjendum og flóttafólki fjölgað verulega eftir að Biden tók við embætti.

Í frétt Reuters kemur þó fram að um tvö mismunandi kerfi eru að ræða. Fólk sem sækir um að flytjast til Bandaríkjanna sem flóttamenn fari í gegnum langt og ítarlegt ferli þar sem bakgrunnur þeirra er meðal annars kannaður. Á meðan þetta ferli klárast er viðkomandi fólk enn í heimalöndum sínum.

Á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó mætir fólk hins vegar og sækir um hæli í persónu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.