Erlent

Fyrstu skammtar Nova­vax verða af­hentir Evrópu­sam­bandinu fyrir árs­lok

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Áætlað er að fyrstu skammtar bóluefnis Novavax gegn Covid-19 verði afhentir Evrópusambandinu fyrir árslok.
Áætlað er að fyrstu skammtar bóluefnis Novavax gegn Covid-19 verði afhentir Evrópusambandinu fyrir árslok. Getty/Pavlo Gonchar

Lyfjaframleiðandinn Novavax hefur tilkynnt Evrópusambandinu að fyrstu skammtar covid-19 bóluefnis framleiðandans verði afhentir sambandinu fyrir lok þessa árs. Þetta gæti orðið til þess að Evrópusambandið geri formlega samning við fyrirtækið um kaup á bóluefni, jafnvel í þessari viku.

Fréttastofa Reuters greinir frá þessu og hefur eftir heimildamanni hjá Evrópusambandinu. Samningur við Novavax gæti tryggt Evrópusambandinu allt að 200 milljón skammta af bóluefninu. Bóluefnið er enn í þróun og gæti því varið fólk gegn nýjum afbrigðum kórónuveirunnar.

Viðræður milli Novavax og Evrópusambandsins um kaup á bóluefni hófust á síðasta ári en undirritun samnings var frestað vegna þess að bandaríska fyrirtækið hefur átt í erfiðleikum með að tryggja sér hráefni fyrir framleiðslu bóluefnisins.

Heimildamaður Reuters segir að Novavax eigi enn í framleiðsluvandræðum en staðan sé nú breytt þar sem fyrirtækið sé búið að kynna afhendingaráætlun.

Novavax og Evrópusambandið hafa fundað undanfarnar tvær vikur þar sem fyrirtækið sagðist ætla að senda fyrstu skammta bóluefnisins fyrir lok þessa árs. Meirihluti bóluefnaskammtanna verður þó afhentur á næsta ári.

Viðræðurnar standa enn yfir en kaupin á bóluefninu velta þó á því að bóluefnið fái markaðsleyfi í Evrópu. Bóluefnið hefur nú verið til skoðunar hjá Lyfjastofnun Evrópu frá því í febrúar. Lyfjastofnunin hefur enn ekki áætlað hvenær niðurstaða kemst í málið en bóluefnið hefur enn ekki fengið markaðsleyfi neins staðar í heiminum.


Tengdar fréttir

Bóluefni Novavax veitir 90 prósenta vörn

Bóluefni lyfjaframleiðandans Novavax veitir 89 prósent virkni gegn kórónuveirunni. Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum þriðja fasa rannsóknar sem gerð var á Bretlandi. Bóluefnið virðist einnig virka gegn suðurafríska afbrigði veirunnar, þó ekki eins vel.

Nú þegar keypt bóluefni fyrir rúma tvo milljarða króna

Íslensk stjórnvöld hafa samið við fimm lyfjaframleiðendur um kaup á bóluefni við Covid-19 fyrir 2.150 milljónir króna. Þá hafa þau jafnframt tryggt sér kauprétt á bóluefni fyrir 1.800 milljónir króna til viðbótar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×