Erlent

Þrír fórust þegar smygl­bát hvolfdi við strendur San Diego

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Að sögn björgunaraðila brotnaði báturinn í þúsund mola.
Að sögn björgunaraðila brotnaði báturinn í þúsund mola. AP/Denis Poroy

Þrír fórust og tugir slösuðust þegar bátur hvolfdi og strandaði við strendur San Diego í Bandaríkjunum í morgun. Talið er að báturinn hafi verið notaður til að smygla farþegum til Bandaríkjanna.

Hjálparbeiðni barst um klukkan 10:30 í gærmorgun að staðartíma eftir að fólk í landi sá bátinn hvolfa nærri Point Loma skaganum. Að sögn talsmanns björgunarsveitar San Diego var upprunalega talið að aðeins nokkrir hafi verið um borð í bátnum en þegar björgunaraðilar hafi komið á staðinn hafi komið í ljós að um tugi væri að ræða.

Björgunarfólki tókst að draga sjö í land, þar á meðal þrjá sem voru látnir að sögn Rick Romero talsmanns sjóbjörgunarsveitar San Diego. Þá tókst að bjarga einum sem var í sjálfheldu við kletta á strandlengjunni en 22 tókst að komast sjálfir í land.

Þrír fórust og 27 voru fluttir slasaðir á sjúkrahús í morgun.AP/Denis Poroy

„Þegar við komum á vettvang var báturinn í molum,“ sagði Romero í samtali við fréttastofu AP í morgun. „Aðstæður voru mjög erfiðar: fimm til sex feta háar öldur, mikill vindur og kuldi.“

Alls 27 voru fluttir á sjúkrahús og voru þeir mismikið slasaðir. Einhverjir höfðu ofkælst að sögn Romeros. Flestir voru þó í það góðu ásigkomulagi að þeir gátu sjálfir gengið í sjúkrabílana sem biðu þeirra.

Jeff Stephenson, starfsmaður landamæraeftirlits Bandaríkjanna, sagði í samtali við fréttamiðla vestanhafs að líklegast sé að um smyglbát hafi verið að ræða. Báturinn, sem var um 12 metra langur, sé þó stærri en þeir sem smyglhringir noti til að ferja fólk frá Mexíkó til Bandaríkjanna og ekki sé búið að komast að því hverrar þjóðar farþegarnir séu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×