Innlent

Ekki hægt að nýta ferðagjöfina í flugmiða til útlanda

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar býst við því að Íslendingar ferðist mest innanlands í sumar. Utanlandsferðir gætu svo færst í aukana eftir því sem fleiri eru bólusettir. Ekki er hægt að nýta ferðagjöf stjórnvalda til að kaupa flugmiða til útlanda.

Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að línur væru teknar að skýrast í flugmálum og jákvæðari teikn nú á lofti í ferðaþjónustu á Íslandi en voru fyrir nokkrum vikum.

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar reiknar til að mynda með að Íslendingar ferðist frekar innanlands í sumar eins og í fyrra, í það minnsta til að byrja með.

„Það eru svona líkur á því, við sjáum það í „trendunum“ í kringum okkur en eftir þennan faraldur, þegar er að vinnast úr honum er líklegra að fólk fari rólegra af stað í ferðalög milli landa.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.Vísir/Arnar

Þegar líður á sumarið gæti þróunin þó orðið eins og hún hefur verið í Bandaríkjunum.

„En við sjáum það líka til dæmis í löndum eins og Bandaríkjunum, þar sem bólusetningar eru komnar mjög vel á veg. Þar eru þeir sem eru bólusettir og með vottorð um að hafa áður fengið veiruna, þeir eru farnir að hugsa sér til hreyfings og ég hugsa að það verði eins á Íslandi, að við getum búist við því að íslendingar fari að leita út eftir því sem fleiri verða bólusettir.“

Stjórnvöld kynntu í gær nýja fimm þúsund króna ferðagjöf sem gildir út sumarið. Jóhannes telur hana mikilvæga innspýtingu.

„Við sáum það í fyrra að ferðagjöfin var ofboðslega góð hvatning fyrir Íslendinga til að fara út og nýta sér það sem var í boði og nýta þá gjöfina til að fylla upp í kostnaðinn. Við búumst við að það verði eins núna og það er afskaplega jákvætt að það sé búið að endurnýja ferðagjöfina.“ 

Er hægt að nýta ferðagjöfina til að kaupa flugmiða til útlanda?

„Nei, það á ekki að vera hægt. Ferðagjöfin er ætluð til ferðalaga innanlands og það er eins núna og áður.“


Tengdar fréttir

Ræða möguleikann á annarri ferðagjöf

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að til greina komi að gefa landsmönnum aðra ferðagjöf í sumar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.