Fótbolti

Sjáðu rosa­legt auka­spyrnu­mark Arons Einars

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Einar fagnar marki í búningi Al Arabi.
Aron Einar fagnar marki í búningi Al Arabi. al arabi

Aron Einar Gunnarsson skoraði eitt marka Al Arabi er liðið vann 3-0 sigur á Umm-Salal í átta liða úrslitum bikarsins í Katar.

Markið skoraði landsliðsfyrilriðinn á 23. mínútu og það var af dýrari gerðinni. Aukaspyrna hans utan af kanti söng í fjærhorninu en markið má sjá hér að neðan.

Leikurinn var liður í QFA-bikarnum en Al Arabi er eftir sigurinn kominn í undanúrslitin. Aron var í byrjunarliði Al Arabi en Heimir Hallgrímsson stýrir liðinu.

Í Grikklandi eru Sverrir Ingi Ingason og félagar í PAOK komnir í úrslitaleik bikarsins eftir 2-1 sigur á AEK Aþenu í síðari leik liðanna í undanúrslitunum.

Sverrir Ingi spilaði allan leikinn fyrir PAOK og nældi sér í gult spjald á 34. mínútu. Mótherjinn í úrslitaleiknum verður Olympiakos.

Kjartan Henry Finnbogason lagði upp mikilvægt sigurmark Esbjerg í dönsku B-deildinni er liðið vann 1-0 sigur á HB Köge.

Kjartan Henry var í byrjunarliði Esbjerg en fór af velli á 57. mínútu. Ólafur Kristjánsson er þjálfari Esbjerg sem er í þriðja sætinu með 55 stig, fjórum stigum á eftir Silkeborg í öðru sætinu, en tvö efstu liðin fara beint upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×