Innlent

Laugardalshöll eins og vel smurð vél í bólusetningunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Það var gengið hratt en örugglega og faglega til verks við bólusetningu þúsunda karla og kvenna á aldrinum sextíu til sjötíu ára í Laugardalshöll í dag.
Það var gengið hratt en örugglega og faglega til verks við bólusetningu þúsunda karla og kvenna á aldrinum sextíu til sjötíu ára í Laugardalshöll í dag. Vísir/Vilhelm

Það var eins og fólk hefði aldrei gert annað en tekið þátt í skipulegum bólusetningum þegar það streymdi inn í Laugardalshöllina öðrum megin og út úr henni hinum meginn í dag. Sóttvarnalæknir var einn þeirra og var snortinn af móttökunum sem hann fékk.

Fullur salur Laugardalshallar brast ósjálfrátt í eitt alsherjar klapp þegar Þórólfur Guðnason gekk í sal Laugardalshallar í dag.Vísir/Vilhelm

Það var mikil röð og regla á bólusetningunum íLaugardalshöll í dag þegar metfjöldi var bólusettur eða rúmlega átta þúsund manns en níu þúsund höfðu verið boðuð. Og fólk var ekkert skelkað að fá AstraZenica efnið.

Það var eins og rokkstjarna gengi í salinn þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mætti með jafnöldrum sínum í bólusetningu í Laugardalshöllinni í dag og þáði fyrri sprautuna af AstraZeneca.

Þú fékkst hjartnæmar móttökur?

„Algjörlega og bara mjög snortinn af því,“ sagði Þórólfur.

Elísabet Pétursdóttir segir Þórólf dásamlegan og tók vel undir þegar klappað var fyrir honum.Stöð 2/Arnar

Og nærvera hans hafi greinilega róandi áhrif á viðstadda eins og Elísabetu Pétursdóttur.

„Hann er bara stórkostlegur. Það eitt er hægt að segja.“

Það var klappað fyrir honum þegar hann kom?

„Algerlega. Ég tók vel undir það,“ sagði Elísabet eftir að hún hafði skömmu áður fengið sprautuna.

Erla Ríkharðsdóttir var ekki smeik við að fá AstraZeneca og sagðist treysta sóttvarnayfirvöldumStöð 2/Arnar

Erla Ríkharðsdóttir var fegin að hafa loks verið bólusett með fyrri sprautunni.

Ekki verra að vera á sama tíma og Þórólfur?

„Nei, nei það er hið besta mál.“

Ekkert hrædd við AstraZeneca?

„Nei, nei, nei, nei. Við treystum bara fólkinu okkar sem segir að þetta sé í lagi,“ sagði Erla.

Jón Júlíus Tómasson sagði traustvekjandi að vita af sóttvarnalækni í sömu sætaröð og hann við bólusetningarnar í morgun.Stöð 2/Arnar

Jón Júlíus Tómasson var líka hæstánægður með sprautuna.

Ekkert skelkaður við þetta umtalaða bóluefni?

„Nei, mér finnst gott að hafa Þórólf hérna í röðinni.“

Traustvekjandi?

„Já, það er traustvekjandi,“ sagði Jón Júlíus og hló.

Jóhönnu Eiríksdóttur leist fyrst ekkert á að verða bólusett með AstraZeneca en sagði það veita henni öryggi að Þórólfur væri á staðnum.Stöð 2/Arnar

Jóhanna Eiríksdóttir var ánægð með að hafa loks stigið þetta skref.

„Ég var nú ekkert hrifin af þessu AstraZenica en ég sé að Þórólfur er hérna í röðinni þannig að það veitir mér öryggi.“

Þú treystir honum?

„Já ég treysti honum.“

Finnur þú eitthvað fyrir því núna strax að vera búin að fá sprautuna?

„Nei, nei. Bara fegin að þetta er búið,“ sagði Jóhanna.

Þórólfur Guðnason fær fyrri sprautuna af AstraZeneca. Hann vonar að hann fái einhverjar aukaverkanir því þær sýni að bóluefnið sé að virka.Vísir/Vilhelm

Og sóttvarnalæknir landsins var í hátíðarskapi og dáðist af skipulaginu og hvað fólk var jákvætt í Laugardalshöll í dag.

„Ég er mjög spenntur. Þetta er flott,“ sagði Þórólfur rétt áður en hann var sprautaður.

Ánægður að fá AstraZeneca?

„Algjörlega. Þetta er toppurinn.“

Heldur þú að þú fáir einhverjar aukaverkanir?

„Örugglega. Vegna þess að ef ég fengi engar myndi ég vera næstum viss um að bóluefnið væri ekki að virka.“

Þannig að þú verður ánægður að finna aðeins til á eftir?

„Já,“ sagði aðalstýrimaður sóttvarnaaðgerða landsins undanfarið rúmt ár.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu var hæstánægð með framkvæmdina á stærsta bólusetningardeginum til þessa.Stöð 2/Arnar

Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu fylgdist með framkvæmdinni í dag.

„Þetta er fólk milli sextugs og sjötugs. Bæði sem er með undirliggjandi áhættuþætti eða líka bara almennir borgarar. Þannig að þetta er allt saman fólk yfir sextugt sem er að koma hingað í bólusetningu í dag.“

Og þetta er mesti fjöldi sem verið hefur?

„Þetta er mesti fjöldi sem verið hefur. Þetta er stærsti dagurinn hingað til,“ sagði Sigríður Dóra þótt níu þúsunda markið hafi ekki alveg náðst þegar upp var staðið. En stefnt er að því að bólusetja annan eins fjölda fólks á morgun.

Her hjúkrunarfræðinga hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur og mánuði við bólusetningarnar. Þær Melkorka Árný Kvaran og Berglind Guðmundsdóttir voru í sólskinsskapi í dag enda sögðu þær fólk almennt svo jákvætt og þakklátt. Þegar við ræddum við þær í dag sögðust þær hafa bólusett um þúsund manns það sem af var liðið degi.

Hjúkrunarfræðingarnir Melkorka Árný Kvaran og Berglind Guðmundsdóttir (t.h) voru hressar í Höllinni í dag þegar þær höfðu bólusett um þúsund manns þegar þar var komið í morgun.Stöð 2/Arnar

Hvað tekur að meðaltali langan tíma að bólusetja hvern og einn?

„Þetta eru svona tíu sekúndur. Fimm til tíu sekúndur. Ótrúlega mannvænar og góðar nálar þannig að fólk finnur ekki fyrir þessu,“ sagði Berglind. Sumir spyrðu jafnvel undrandi á eftir hvort virkilega væri búið að sprauta það.

Mér finnst þið fara svo djúpt með nálina?

„Já við þurfum að fara inn í vöðva. Við erum að sprauta í vöðva. Þannig að við förum alveg í vöðvann til að efnið skili sér,“ sagði Melkorka Árný. Þær stöllur sögðust ekki hafa orðið vitni að því að það liði yfir fólk og áréttuðu að ef eitthvað kæmi upp á væri heilbrigðisstarfsfólk til reiðu og sjúkrabíll rétt utan við húsið.

Árni Friðleifsson aðalvarðstjóri í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stýrði flæði fólks í gegnum Laugardalshöll í dag eins og sá blíði herforingi sem hann alltaf er.Vísir/Vilhelm

Árni Friðleifsson aðalvarðstjóri í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er öllu vanari að stýra umferðinni á mórorhjóli hjá lögreglunni en bólusetningum innanhúss. Hann sagði brosandi að nauðsynlegt væri að hafa aga í kerfinu.

En er þetta eins og að stýra umferð?

„Já þetta er dálítið svipað. Maður þarf bara að taka ökumenn ..... og alveg hingað út að enda að lögreglumanninum. Svo eltið þið bara næsta og svo koll af kolli. Elta bara og setjast við hliðina á næsta manni,“ sagði Árni þar sem hann stýrði mannfjöldanum og talaði samtímis við fréttamann og fólk í þrammandi röð.

Þetta gengur eins og smurð maskína?

„Já, já. Þetta er skemmtilegt verkefni. Allir jákvæðir og til í þetta,“ sagði Árni Friðleifsson og var síðan horfinn inn í mannfjöldan að vísa fólki leiðina að lausum sætum.


Tengdar fréttir

Þórólfur vonast eftir að fá aukaverkanir

Sneisafull Laugardalshöllin tók á móti Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni með dúndrandi lófataki þegar hann gekk í salinn til að fá bólusetningu við covid 19 í morgun. Hann vonast til að finna til einkenna eftir fyrstu sprautuna enda þýði það að ónæmiskerfi líkamans sé að taka við sér.

Klappað fyrir Þórólfi í Laugardalshöllinni

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, var bólusettur í dag. Bólusetningin fór fram í Laugardalshöll og fékk Þórólfur fyrsta skammt sinn af bóluefni AstraZeneca.

Svandís bjartsýn afléttingu takmarkana samhliða auknum bólusetningum

Heilbrigðisráðherra segir unnið að því að útfæra bólusetningardagatalið þannig að fólk á öllum aldri geti séð nokkurn veginn hvenær það megi reikna með að fá bólusetningu við covid 19. Í dag var birt áætlun um afléttingu sóttvarnaaðgerða samhliða fjölgun fólks sem verið hefur bólusett.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×