Erlent

Kona skotin til bana á götu úti í Osló

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í Frogner-hverfi í vesturhluta norsku höfuðborgarinnar.
Árásin átti sér stað í Frogner-hverfi í vesturhluta norsku höfuðborgarinnar. Getty

Kona var skotin til bana á götu úti í Frogner-hverfi í vesturhluta norsku höfuðborgarinnar Osló í morgun. Lögregla hefur handtekið mann sem grunaður er um verknaðinn.

NRK segir að lögreglu hafi borist tilkynning um málið skömmu fyrir klukkan 8:30 að staðartíma í morgun. Konan var svo útskurðuð látin þegar sjúkralið bar að garði.

Einungis þremur mínútum eftir að tilkynning barst lögreglu var maður handtekinn í bíl á E18-hraðbrautinni, en hann var á leið út úr bænum. Ábendingar höfðu þá borist um að maður hafi yfirgefið vettvanginn í bíl á miklum hraða. Vopn fundust í bíl mannsins.

Gjermund Stokkli hjá lögreglunni segist ekki telja að svo stöddu að fleiri menn hafi komið að morðinu sem átti sér stað á Tostrups gate í hverfinu Frogner. Lögregla hefur girt af svæði vegna rannsóknar málsins og rætt við sjónarvotta og íbúa við götuna. Sömuleiðis hefur verið gerð húsleit skammt frá árásarstaðnum.

Íbúi við götuna segir í samtali við VG að heyrst hafi fjögur eða fimm skot. Annar segist hafa heyrt allt að sex skot.

Stokkli segir of snemmt að greina frá tengslum meints morðingja og hinnar látnu að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×