Tónlist

Daði fær silfurplötu í Bretlandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Daði með silfrið. Hann er kominn í hóp þekktustu tónlistarmanna Íslands í Bretlandi.
Daði með silfrið. Hann er kominn í hóp þekktustu tónlistarmanna Íslands í Bretlandi.

Daði Freyr hefur fengið silfurplötu í Bretlandi fyrir lagið Think About Things. Um er að ræða söluviðurkenningu sem vottar að lagið seldist í 200 þúsund eintökum þar í landi.

Daði náði þeim áfanga í lok janúar en lagið kom út í apríl í fyrra. Think About Things náði miklum vinsældum í Bretlandi í fyrra og var alls sex vikur á topp 40 vinsældalistanum.

Klippa: Daði Freyr (Daði & Gagnamagnið) - Think About Things

Í dag eru þrjár vikur í fyrra undanúrslitakvöld Eurovision. Daði og Gagnamagnið koma fram á því seinna fyrir hönd Íslands með lagið 10 Years. Það fer fram fimmtudagskvöldið 20. maí í Ahoy höllinni í Rotterdam.

Daði kominn í flottan hóp

Aðrir íslenskir listamenn sem hafa náð þessum árangri með sölu smáskífa í Bretlandi eru Björk, Sigur Rós, Kaleo og Of Monsters and Men. Daði er því sá fimmti á þann lista.

Of Monsters and Men eru þau einu sem hafa náð þessum áfanga með tveimur lögum. Little Talks sem kom út í febrúar 2012 fékk að lokum tvöfalt platínum og lagið Dirty Paws sem kom út í apríl sama ár náði silfri.

Björk Guðmundsdóttir náði gulli fyrir lagið It's Oh So Quiet sem kom út í nóvember 1995. 

Hoppípolla kom út í september 2005 og fengu Sigur Rós að lokum silfurplötu fyrir það.

Kaleo náðu svo gulli með lagi sínu Way Down We Go sem kom út í september 2015.

Athygli vekur þó að Daði var furðu fljótur að ná þessum áfanga miðað við mörg af hinum íslensku lögunum sem hafa náð honum.

Í þessu samhengi ber að nefna viðurkenningar sem hafa hlotist fyrir sölu á plötum í fullri lengd. Björk trónir þar á toppnum en hún hefur verið verðlaunuð fyrir sölu á sjö plötum. Síðan Sigur Rós fimm, Of Monsters and Men tveimur og Kaleo einni.

Upplýsingarnar eru fengnar af vef BPI, British Phonographic Industry.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.