Innlent

Sprautur og tölvuleikir í Laugardalshöll

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Níu þúsund manns hafa fengið boð í bólusetningu á miðvikudag.
Níu þúsund manns hafa fengið boð í bólusetningu á miðvikudag. Vísir/Vilhelm

Metvika verður í bólusetningum þessa vikuna þegar allt að níu þúsund manns fá sprautu á einum degi. Á sama tíma er von á ríflega sjö hundruð tölvuleikjaspilurum í Laugardalshöllina.

Undirbúningur í Laugardalshöll er í fullum gangi enda hafa tæplega fimmtán þúsund manns fengið boð í bólusetningu þessa helgina. Um þrjú hundruð stólum hefur verið raðað skipulega upp í stóra sal hallarinnar en um fimmtíu starfsmenn frá heilsugæslunni, lögreglunni, slökkviliðinu og Öryggismiðstöðinni, svo dæmi séu tekin, koma að undirbúningnum. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir undirbúninginn hafa gengið vel.

„Þetta er stærsta vikan hjá okkur hingað til þannig að það er mikill undirbúningur í gangi. Við höldum áfram að vera í Laugardalshöll og við munum bólusetja með Pfizer á þriðjudag og síðan með Astra Zeneca á miðvikudag og það verður stærsti dagurinn þar sem það hafa verið boðaðir hátt í níu þúsund manns,” segir Sigríður.

Fólk á milli sextugs og sjötugs hefur fengið boð eftir helgi og fá þeir sem eru ekki með undirliggjandi sjúkdóma fá bóluefni Astra Zeneca og aðrir Pfizer. Bólusetningarnar hafa gengið nokkuð hratt fyrir sig en yngra fólk fékk bóluefni í síðustu viku.

„Það voru þessir forgangshópar sem eru fjölmennir og við erum líka byrjuð að bólusetja yngstu hópana, þá sem eru með alvarlegustu sjúkdómana,” segir Sigríður.

Bólusetningarnar voru færðar í stóra sal Laugardalshallarinnar vegna eins stærsta rafíþróttamóts heims sem verður haldið þar í maí og stendur yfir í um fjórar vikur. Víðir Reynisson hjá almannavörnum hefur verið í samskiptum við forsvarsmenn mótsins.

„Þetta eru um 700-800 manns í heildina sem koma að þessu. Þetta er ansi stór hópur. Einhverjir af þessum einstaklingum eru bólusettir og aðrir fara í fimm daga sóttkví og ljúka henni áður en þeir hefja keppni í þessu. Eins og skipulagið er sett upp þá voru einu sem þurftu einhverjar undanþágur nokkrir starfsmenn sem koma á undan til að setja upp búnað og eru í svokallaðri vinnusóttkví. Þeir setja upp búnaðinn og eru síðan á hótelinu.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.