Enski boltinn

Kane og De Bruyne í kapphlaupi við tímann

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kevin De Bruyne þykir líklegri til að ná úrslitaleiknum en Harry Kane.
Kevin De Bruyne þykir líklegri til að ná úrslitaleiknum en Harry Kane. Getty Images/Tottenham Hotspur

Bæði Kevin De Bruyne og Sergio Agüero gætu verið með Manchester City er liðið mætir Tottenham Hotspur í úrslitaleik enska deildabikarsins á morgun. Þá vonast Tottenham-menn til að fyrirliði liðsins Harry Kane verði með.

De Bruyne fór meiddur af velli í 1-0 tapi City fyrir Chelsea í undanúrslitum FA-bikarsins síðustu helgi og missti af 2-1 sigri liðsins á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í miðri viku. Hann var þó með á æfingu í gær og vonast Pep Guardiola, stjóri City, að hann verði heill heilsu á morgun.

Sergio Agüero var einnig með á æfingu í gær sem er góðs viti fyrir City-menn, sem eiga annan stórleik, við Paris Saint-Germain, í Meistaradeildinni á miðvikudag.

Harry Kane, markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður Tottenham á leiktíðinni, meiddist á ökkla gegn Everton síðustu helgi og missti af 2-1 sigri á Southampton á miðvikudag. Samkvæmt breskum miðlum er hann tæpur fyrir úrslitaleik morgundagsins þar sem hver klukkutími mun skipta máli.

Manchester City hefur tök á því að vinna deildabikarinn fjórða árið í röð á morgun en Tottenham freistar þess að vinna sinn fyrsta titil frá árinu 2008, þegar liðið vann sömu keppni.

Leikur liðanna hefst klukkan 15:30 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×