Fótbolti

Leikmenn Schalke gætu neitað að spila eftir árásirnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Stambouli, leikmaður FC Schalke 04, sést hér eftir tapið á móti Arminia Bielefeld.
Benjamin Stambouli, leikmaður FC Schalke 04, sést hér eftir tapið á móti Arminia Bielefeld. EPA-EFE/Frederic Scheidemann

Það er ófremdarástand hjá þýska félaginu Schalke 04 eftir að stuðningsmenn félagsins réðust á leikmenn liðsins í kjölfarið á því að liðið féll úr þýsku bundesligunni á þriðjudagskvöldið.

Nú er svo komið að leikmenn hafa ekki mætt á æfingu í tvo daga og yfirmenn félagsins eru ekki vissir um að allir leikmenn liðsins vilji spila aftur fyrir Schalke.

„Ég mun aldrei gleyma óttanum í augum Buyo,“ sagði liðstjórinn og goðsögnin Gerald Asamoah um árásina og var þar að tala um aðstoðarþjálfarann Mike „Buyo“ Buskens.

Schalke 04 féll úr deildinni eftir 1-0 tap á móti Arminia Bielefeld á þriðjudagskvöldið en liðið skilaði sér aftur heim um nóttina. Þar biðu stuðningsmennirnir eftir rútunni. Þeir vildu fá að ræða við leikmennina sen fljótlega kom í ljós að allt annað var á dagskránni þegar stuðningsmennirnir réðust á leikmennina þegar þeir komu út úr liðsrútunni.

Schalke 04 hefur verið í efstu deild frá árinu 1988 og fallið að sjálfsögðu mikið áfall. Það er þó framkoma stuðningsmannanna sem hefur verið mesta áfallið.

„Ég var einn af þeim fyrstu út úr rútunni og ég var ekkert hræddur. Ég hef þekkt stuðningsmennina lengi og hélt að ekkert myndi gerast,“ sagði Gerald Asamoah við blaðamenn.

Lögreglan beið við hliðið og stuðningsmennirnir fengu því nokkrar mínútur til að láta reiði sína bitna á föllnu stjörnunum. Eggjum var kastað í leikmennina og sumir þeirra voru eltir uppi af stuðningsmönnum. Þeir skemmdu líka að minnsta kosti einn bíl í eigu leikmanns samkvæmt heimildum ESPN.

Íþróttastjórinn Peter Knabel hefur í framhaldinu sagt að hann ætli að gefa leikmönnum valkost um að þurfa ekki að spila aftur fyrir liðið á þessu tímabili.

„Ég get lifað með öllum ákvörðunum svo framarlega að þær fari eftir lögum. Við verðum að sjá til hvernig leikmönnunum líður,“ sagði Peter Knabel við Sportschau. Schalke 04 á eftir að spila fjóra leiki í deildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×