Erlent

Geimfarar á leið til geimstöðvarinnar með ferju SpaceX

Kjartan Kjartansson skrifar
Geimfararnir fjórir, frá vinstri: Megan McArthur, Thomas Pesquet, Shane Kimbrough og Akihiko Hoshide á leið sinni að skotpallinum í nótt.
Geimfararnir fjórir, frá vinstri: Megan McArthur, Thomas Pesquet, Shane Kimbrough og Akihiko Hoshide á leið sinni að skotpallinum í nótt. AP/John Raoux

Fjórir geimfarar eru um borð í geimferju fyrirtækisins SpaceX sem verður skotið á loft frá Flórída í Bandaríkjunum nú í morgun. Ferðinni er heitið í Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu.

Gangi allt að óskum verður geimferjunni skotið á loft með Falcon-eldflaug klukkan 5:49 að staðartíma, klukkan 9:49 að íslenskum tíma. Búist er við hagstæðum veðurskilyrðum yfir Kennedy-miðstöð bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA á Canaveral-höfða. Hætta þurfti við geimskotið vegna veðurs í gær.

Þetta verður þriðja mannaða geimferð einkafyrirtækisins SpaceX samkvæmt samningi þess við NASA um að flytja menn til geimstöðvarinnar. AP-fréttastofan segir að þetta sé í fyrsta skipti sem fyrirtækið notar til þess endurnýtta Falcon-eldflaug og Dragon-geimferju.

Um borð eru tveir bandarískir geimfarar, einn franskur og einn japanskur. Þeir eiga að leysa af hólmi áhöfn sem er fyrir í geimstöðinni og dvelja þar í sex mánuði.

Hægt er að sjá upptöku af geimskotinu í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Mönnuð geimferja tekur á loft

Uppfært 10:05 Geimskotið virðist hafa gengið að óskum og eru geimfararnir fjórir nú á leið til geimstöðvarinnar. Þeir eru væntanlegir þangað um klukkan 9:10 að íslenskum tíma á morgun. Nokkrum mínútum eftir að fyrsta þrep eldflaugarinnar var losað frá henni lenti það á pramma rétt austan við Flórídaskaga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×