Erlent

Varð ófrísk að öðru barni á meðan hún var þegar ólétt af því fyrsta

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Tvíburarnir komu í heiminn nokkrum vikum fyrir settan dag. Þau komu í heiminn á sama tíma þótt þau hafi ekki verið getin á sama tíma.
Tvíburarnir komu í heiminn nokkrum vikum fyrir settan dag. Þau komu í heiminn á sama tíma þótt þau hafi ekki verið getin á sama tíma. Getty

Kona nokkur í Bretlandi, hin 39 ára Rebecca Roberts, varð ófrísk að öðru barni á meðan hún gekk með annað. Hún og eiginmaður hennar, Rhys Weaver sem er fjórum árum eldri, höfðu reynt árangurslaust í rúmt ár að eignast barn þegar það loksins tókst og rúmlega það. Getnaður varð ekki einu sinni heldur tvisvar með þriggja vikna millibili.

Aðeins er vitað um innan við tíu tilfelli af þessum toga á heimsvísu að því er fram kemur í umfjöllun CNN um þennan svokallaða „ofurgetnað.“

Í fyrstu var ekki að sjá annað í bæði sjö og tíu vikna sónar-skoðun að Noah litli væri einn í móðukviði. Þegar þrír mánuðir voru liðnir á meðgönguna kom hins vegar í ljós að Noah var kominn með félagsskap. Í tólf vikna skoðun kom í ljós að systir hans Rosalie hafði einnig hreiðrað um sig í móðurkviði.

„Ég varð ólétt á meðan ég var þegar ólétt, sem er algjörlega klikkað… því það á ekki að gerast,“ segir Rebecca í samtali við CNN. Ofurgetnaður (e. superfetation) eins og það er kallað þegar kona verður ófrísk aftur á meðan hún er þegar ófrísk er afar sjaldgæfur, en samkvæmt rannsókn frá árinu 2008 er vitað um innan við tíu slík tilfelli á heimsvísu.

Læknar upplýstu foreldrana um að líklega hafi liðið um þrjár vikur á milli getnaðar þeirra Noah og Rosalie. „Ég trúði ekki að þetta hafi komið fyrir mig,“ segir Rebecca hlægjandi. „En það gerðist og það er yndislegt. Þetta er eins og að vinna lottó.“

Og faðirinn var ekki síður kátur. „Ég var himinlifandi yfir því að eignast eitt barn, en ennþá glaðari varð ég að fá tvíbura. Tveir fyrir einn!“ segir Rhys.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×