Innlent

Eldgosið í eldlínunni í vinsælasta morgunþætti Bandaríkjanna

Snorri Másson skrifar
Good Morning America er vinsælasti morgunþáttur í Bandaríkjunum.
Good Morning America er vinsælasti morgunþáttur í Bandaríkjunum. GMA

Sjónvarpsþátturinn „Good Morning America“ hjá sjónvarpsstöðinni ABC News bauð upp á ýtarlega umfjöllun um eldgosið í Fagradalsfjalli í þætti dagsins. Þátturinn er einn allra vinsælasti fréttaþáttur í Bandaríkjunum og hann er langsamlega vinsælasti morgunþátturinn.

Blaðamaður þáttarins, Will Reeve, var í beinni útsendingu frá gosstöðvunum, að sjálfsögðu samviskusamlega bólusettur og með gasgrímu til vonar og vara.

„Þetta er magnað. Ég er ekki viss um að orð eða myndir geti miðlað því með fullnægjandi hætti hve stórbrotið sjónarspil þetta er,“ segir Reeve í samtali við kollega sinn.

Yfirskrift umfjöllunarinnar er: „Vísindamenn flykkjast til Íslands til að berja sjaldgæft eldgos á Íslandi augum.“ Ásamt því sem fjallað er um áhrif gossins á jörðina í kring, er talað um að það geti veitt þeim upplýsingar um aðrar plánetur, eins og Mars.

Reeve leitar fanga víða. Hann ræðir við sérfræðinga Veðurstofu Íslands, þær Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár, og Melissu Anne Pfeffer, sérfræðing á sviði gasdreifingar.

Sara og Melissa eru hluti af stórum hópi sérfræðinga á Veðurstofunni og annarra vísindamanna sem hafa fylgst náið með virkninni á Reykjanesskaga sem má segja að hafi byrjað rúmu ári áður en til eldgoss kom.

Rúmar fimm milljónir horfa á Good Morning America á hverjum degi, samkvæmt mælingum vestanhafs. Áhugi áhorfenda á íslenskum eldgosum mun vera nokkur, enda gerði þátturinn eldgosinu í Holuhrauni 2014 einnig góð skil.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×