Fótbolti

„Hann er hinn íslenski Kevin De Bruyne“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miklar vonir eru bundnar við Kristian Nökkva Hlynsson.
Miklar vonir eru bundnar við Kristian Nökkva Hlynsson. getty/Angelo Blankespoor

Hinn sautján ára Kristian Nökkvi Hlynsson líkist Kevin De Bruyne, leikmanni Manchester City. Þetta segir Ronald de Boer, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands og Evrópumeistari með Ajax.

Kristian kom til Ajax frá Breiðabliki á síðasta ári en hann þykir afar efnilegur. Hann leikur með vara- og unglingaliðum Ajax og hefur einnig æft með aðalliði félagsins.

De Boer starfar við þjálfun hjá Ajax og þekkir því vel til Kristians. Í viðtali við ESPN í gær ræddi De Boer um framtíðarleikmenn Ajax og nefndi meðal annars Kristian og líkti honum við einn besta leikmann heims.

„Hann er hinn íslenski Kevin De Bruyne. Fylgist með honum,“ sagði De Boer um Kristian. Ekki leiðum að líkjast.

De Bruyne var valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Hann hefur tvisvar sinnum orðið Englandsmeistari með City og er auk þess lykilmaður í belgíska landsliðinu sem er á toppi styrkleikalista FIFA.

Kristian lék einn leik með Breiðabliki í Pepsi Max-deild karla áður en hann fór til Ajax. Hann hefur leikið tíu leiki fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×